Hvað er þjóðfræði?

   Þar sem ég les þjóðfræði við Háskóla Íslands er ég iðulega spurður um hvað fagið sé og til að forðast of miklar útskýringar segi ég að það sé nokkurs konar framhald af sagnfræði, því allir virðast halda að þeir viti allt um sagnfræði. En svona til gamans kemur hér stutt ritgerð eftir mig sem svarar vonandi spurningunni:  Hvað er þjóðfræði?

Ég hitti nokkra kunningja mína sem ég hafði ekki séð lengi og þeir spurðu hvað væri að frétta.  Ég svaraði eins og vera bar og minntist á að ég læsi þjóðfræði við Háskóla Íslands. Það virtist ekki koma  þeim á óvart því þeir vissu um áhuga minn á þjóðsögunum og tengdu þjóðfræðihugtakið beint við sögurnar og útkoman varð þjóðsagnafræði. Tveir þeirra spurðu þó hvort eitthvað meira fælist í þessu heiti og þótti mér þá gott að geta vitnað í bókina Þjóðtrú og þjóðfræði eftir Jón Hnefil Aðalsteinsson:

 

Þjóðfræði er vísindagrein sem fæst við rannsókn þjóðmenningar.  ... 

Í þjóðfræðiheitinu felst tvennt: annars vegar fræðin um þjóðina, heimildir og hugmyndir um þá þjóð sem rannsókn snýst um hverju sinni, líf hennar og starf, kosti og kjör, en hins vegar felst í heitinu fræði þjóðarinnar, sá fróðleikur sem dreginn hefur verið saman á liðinni tíð með hverri þjóð og lifað sem hluti af menningu hennar og borist sem arfur frá einni kynslóð til annarrar. (Jón Hnefill Aðalsteinsson, 1985:9)

 

Að sjálfsögðu mundi ég þetta ekki orðrétt því þá hefði hópurinn flutt sig um set og tekið upp léttara hjal og ég staðið einn eftir. Þar sem enginn okkar var að flýta sér settumst við inn á næstu krá og fengum okkur bjór. „Þetta gæti nú verið eitt verkefnið í fræðunum,“ sagði ég og lyfti upp bjórglasinu. Forvitni þeirra var vakinn og ég fræddi þá um að ein grein þjóðfræðinnar væri þjóðháttafræði sem fjallaði um verkmenningu, húsagerð, matargerð og þar af leiðandi um bjórbruggun ásamt handiðnum og klæðaburði.

„Eru þetta þá ekki bara þjóðsögur?“, var næsta spurning. „Er þetta allt svona þjóð-eitthvað?“ og ég svarað að eitt þjóð-eitthvað í viðbót væri þjólífsfræði. Þegar í ljós kom að hvorki væri klám né stóðlíf á bak við það orð virtist sem áhuginn ætlaði að dofna en ég bætt þá við að „þjóðfræðin væri yfirgripsmikil grein sem tengdist mörgum greinum innan Háskólans.“

„Hvaða greinum?“ var spurt og ég sá fyrir mér mynd þar sem stóð orðið Þjóðfræði í litlum kassa en allt í kring sveimuðu aðrir litlir kassar með nöfnum eins og sagnfræði, félagsfræði, mannfræði, trúarbragðafræði, bókmenntafræði, íslenska, listasaga, fornleifafræði, safnafræði og ferðamálafræði.    Þótt ég sæi þetta svona glögglega fyrir mér fannst mér ég þurfa að nefna mannfræði og trúarbragðafræði.

„Áttu við guðfræði?“ var spurt. „Guðfræði er trúarbragðafræði,“ var svarað úr annarri átt, „kemur þetta ekki inn á þjóðtrúna?“

„Fyrst þú ert að minnast á þjóðtrúna,“ svaraði ég, „þá er nútímamerking orðsins ekki nema hundrað ára gömul. Áður merkti þjóðtrú sama og ríkistrú eða þjóðkirkja.“ Þegar ég sá himnu færast yfir augu þeirra bætti ég við: „Andstæða þjóðtrúar var hjátrú sem þýddi aukatrú líkt og hjákona merkir aukakona.“

„Þú hefur ekki nælt þér í „aukakonu“ í Háskólanum?“ gall við í æringja hópsins og menn hlógu. „Þær gætu verið dætur mínar,“ svaraði ég, „og jafnvel sonardætur,“ bætti ég við. „Ég heyrði einmitt einhvers staðar að kvenfólk sækti í Háskólann,“ sagði fréttahaukurinn í hópnum, „svo það hlýtur að vera allt fullt af kvenfólki í kringum þig?“ „Minnstu ekki á það,“ svaraði ég, „ég er eini „strákurinn“ í bekknum og allir kennararnir eru kvenmenn.“ „Er nauðsynlegt að hafa stúdentspróf til að komast í Háskólann?“ spurði kvennamaðurinn í hópnum.

Það er heilmikið órannsakað í þjóðfræðinni, meðal annars hvers vegna „strákar“ skuli alltaf þurfa að ræða um kvenfólk þegar þeir hittast.

 

Þessi viðbót er færð í dag, 29. apríl 2007: Ef þig langar til að sjá allar sætu stelpurnar klikkaðu þá á http://www.graenagattin.net/jolasjo

 

                                                       Heimildaskrá 

     Árni Björnsson, (1996). Hvað merkir þjóðtrú. Skýrnir, (179)

    Félagsvísindadeild. (2006). Þjóðfræði. Upplýsingabæklingur um þjóðfræði. Háskóli Íslands;   Reykjavík.

    Jón Hnefill Aðalsteinsson, (1985). Þjóðtrú og þjóðfræði. Iðunn: Reykjavík.

    Þjóðbrók. (2005). Vefur þjóðfræðinema. Sótt 26. september 2006 af

              http://www.hi.is/nem/thjodbrok/namid.htm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband