Færsluflokkur: Örsögur

Örsaga 003: Afmælisljóðið

Undir morgun skreið ung stúlka, á að giska átta til tíu ára gömul, upp í til Jóns leirskálds og hreiðraði um sig í fangi hans.

„Eigum við að spúna?“ spurði hún „liggja saman eins og teskeiðar í skúffu.“

Þótt hún væri ekki eldri en þetta vissi Jón alveg hver hún var. Skáldgyðjan sjálf.

„Ég veit hvað spúna er,“ svaraði Jón nývaknaður og fannst þessi ameríkansering hálf kjánaleg.

„Þú ert yngri en ég hélt,“ sagði Jón.

„Ég er á þeim aldri sem skáldið vil hafa mig,“ svaraði hún.

„En ég er ekki skáld og ég minnist þess ekki að ég hafi hugsað mér þig á einhverju sérstökum aldri,“ sagði Jón.

„Kannski þig langi til að eiga dóttur á þessum aldri,“ sagði hún.

„Það gæti verið,“ hugsaði Jón eiginlega frekar en að segja það upphátt.

„Eigum við þá ekki að byrja?“ spurði hún.

„Byrja?“ spurði Jón á móti.

„Ætlaðirðu ekki að yrkja ljóð til konunnar út af sextugsafmælinu?“

„Jú, ég hef verið að velta því fyrir mér, en einhvern veginn ekki komið því í verk.“

„Ég get ekki ort fyrir þig,“ svaraði hún, „ég er bara innblástur, þú verður að yrkja.“

„Allt í lagi,“ svaraði Jón. „Um okkar fyrstu kynni datt mér í hug:

 

Á Hressó þér algebru kenndi

þú sagðir: „Ég á það bendi,

að mér þykir það leitt

en ég skil ekki neitt

enda fer ég betur í hendi.“

 

„Þetta er nú frekar slappt,“ sagði hún. „Hvaða bragarháttur er þetta eiginlega?“

„Þetta er limra,“ svaraði Jón, „veistu það ekki?“

„Ég veit ekki neitt,“ svaraði hún, „Ég er bara innblásturinn, vindurinn sem knýr orgelið, þitt er að spila á nóturnar.“

 

   Nú var þögn um hríð en þá sagði hún: „Er þetta allt og sumt?“

„Nei, hún spáir í bolla, þótt það sé ekki á hvers manns vörum og því datt mér í hug:

 

Þótt bersögul sé borgin

þá berst það ekki út á torgin

að hún spáir í bolla

og sér margan skolla

skjótast um kaffikorginn.“

 

„Þessi er ekki svo vitlaus, viltu meiri innblástur?“ spurði hún eins og hún væri að bjóða brjóstsykur.

„Já, takk,“ svaraði Jón og kættist aðeins. „Hún vinnur mjög mikið en hefur samt tíma til að sinna því sem hún hefur áhuga á eins og að syngja í kórum, yrkja sálma og...“

„Og hvað gerir þú?“ spurði hún.

„Ég sé um matinn,“ svaraði Jón.

„Geturðu komið þessu saman?“ spurði hún.

„Hvernig væri:

 

Hún Sigríður kann ekki að slugsa

og því hef ég verið að hugsa

að sálma hún syngur

og sér um fingur

hún vefur sextugum uxa.“

 

„Þú ert alveg vonlaust keys,“ svaraði hún og stökk fram úr rúminu.

 

Jón leirskáld horfði á eftir henni út um svefnherbergisdyrnar og hugsaði með sér að eflaust færi aldur Skáldagyðjunnar eftir þroska skáldsins, þótt hún kynni að koma sér hjá því að segja það berum orðum.


Örsaga 002: Litla hafmeyjan

    Jón feiti var í góðum holdum án þess að hann réri í spikinu. Hann taldi það sér til trafala í kvennamálum og honum fannst hann hálfgerð kvennafæla. Það skipti ekki máli þótt hann væri vel stæður og ætti stórt hús, kvenfólk leit ekki við honum. Hann var kominn á miðjan aldur og þráði það heitasta að kynnast konu og eignast börn, helst fullt hús af börnum. Hann orðaði þetta ekki við nokkurn mann, því hann vissi að í karlafélagsskap yrði hann álitinn eitthvað skrýtinn og konur vildu ekki heyra minnst á  „fullt hús af börnum", eitt eða tvö var nóg. Þegar hann grandskoðaði sálartetrið varð hann að viðurkenna að það sem hann þráði hvað mest var að komast yfir kvenmann. Hann var hættur að setja skilyrði fyrir fegurð, háralit eða vexti, hann vildi bara komast í kvenmannssköp.

   Síðla eitt sumarkvöld þegar ekkert var í sjónvarpinu tók hann á sig rögg og fór í göngutúr. Þetta hafði staðið til mánuðum saman og var þáttur í megrun, en eins og margt annað sem einnig átti að vera þáttur í megrun hafði það setið á hakanum. En nú var stundin runninn upp, hann fann það á sér, upp úr sófanum og út að ganga. En hvert? Hann bjó úti á Seltjarnarnesi og þar var ekki um margt að velja nema þá að rölta út í Gróttu.

   Sól var enn á lofti og þetta var fallegt kvöld. Jón feiti rölti eftir stígnum út að golfklúbbnum og sá ekki nokkurn mann á ferli. Hann var orðinn dálítið sveittur og fætur hans rakir í skónum svo hann fór út af gangstígnum og niður í fjöru, fór  úr skóm og sokkum og óð aðeins í sjónum. Sjórinn kældi hann niður og hann naut þess að vaða eins langt og uppbrotinn á buxunum leyfðu. Þegar kaldur sjórinn lék um læri hans reis honum hold, en það hafði ekki hent hann áður. Yfirleitt leiddi kuldi til þess að limurinn dróst saman og varð eins og rúsína. Þegar hann þoldi ekki lengur við flýtti hann sér að vaða í land, settist á stein og þurrkaði á sér fæturna með sokkunum, beið síðan eftir að risið lækkaði, stakk berfættum fótunum í skóna og rölti heim á leið.

   Kvöldið eftir fann hann þörf hjá sér að fara út að ganga, en nú hafði hann lítið handklæði meðferðis. Allt fór á svipaða leið og hann varð bara nokkuð ánægður með sig.

   Þegar þetta hafði gengið svona í nokkurn tíma og hann var farinn að venjast köldum sjónum og óð því lengra og lengra, kom það fyrir að hann fór úr buxum og nærbuxum þegar engin var sjáanlegur og óð alveg upp í mitti og fann hold sitt þrútna af ánægju.

   Þannig stóð hann út í sjónum er hann fann að eitthvað snerti lim hans ofur varlega. Jóni feita brá samt nokkuð sem ekki var furða og hrökk aftur á bak og leit niður í sjóinn. Eitthvað gult sveif um þarna niðri. Hann ætlaði að grípa eftir því, en það færðist undan. -Lifandi þang? hugsaði hann, en um leið færðist gula þangið upp að yfirborðinu og síðan upp úr sjónum. Það reyndist vera gullfallegt sítt hár og ekki var andlitið síðra sem það umlukti.

   Jón feiti gapti af undrun og ætlaði að segja eitthvað, en gyðjan setti fingur á munn sér,  synti síðan til hans og reis til hálfs upp úr sjónum. Hún var nakin svo langt sem hann sá en ljósa, síða hárið huldi lítil brjóst hennar. Hún nálgaðist hann og lagði handleggina um háls hans og kyssti hann innilega. Hvað gat hann sagt? Hvað gat hann gert? Kossinn var frekar kaldur og með saltbragði en það var skiljanlegt eða svo fannst Jóni.

   Hann tók utan um hana og lyfti henni upp og síðan aðeins frá sér. Hann hafði aldrei séð aðra eins fegurð. Hann vissi ekki alveg hvað hann átti að gera og gerði því það sem hann hafði hneykslast á í hundruðum kvikmynda. Hann lagði hönd að vanga hennar og færði fingurna smámsaman undir kjálkann. Hún misskildi hann, því hún dæsti svo hann fann rakt loft streyma snöggt um fingurna og hann kippti hendinni að sér. Hún brosti og snéri höfðinu þannig að hann sá tálknin. Þegar hún sá svipinn á honum brosti hún og önnur hönd hennar seig niður í djúpið og tók utan um liminn. Jón feiti fann sælu hríslast um sig, hann lygndi aftur augunum og sá því ekki nema á sekúndubroti sporðinn sem skaust augnablik upp úr sjónum er höfuð gyðjunnar hvarf í djúpið.

   Jón feiti „flaut" í himnasælu í köldum sjónum en þegar skvettist framan í hann var eins og hann ryki upp af góðum draumi. Hann leit í kringum sig og sem betur fer var ekki nokkurn mann að sjá hvorki á láði né í legi. Hann óð í land, þurrkaði sér í skyndi og flýtti sér heim.

   Næstu kvöld rölti hann niður í fjöru og leit út yfir hafið. Hann var ekki viss hvort hann hafði verið að dreyma eða hvað hafði í rauninni komið fyrir hann, en hann gat ekki afmáð mynd hennar úr huganum. Hann hélt samt áfram þessum kvöldgöngum sínum, staldraði við og horfði út á hafið og rölti svo heim á leið.

   Ári síðar þegar hann var nýkominn heim og búinn að taka af sér var bankað á dyrnar. Jón feiti átti ekki von á gestum, bjóst við einhverjum sölumanni eða álíka truflunarvaldi og opnaði því dyrnar frekar hastarlega. Hann bráðnaði er hann sá hana standa þarna umlukta gyltu hárinu. Standa? Já, hún var með fætur!

   „Ertu komin?" spurði hann, en það er einmitt það augljósasta sem við spyrjum um þegar við höfum það fyrir augunum. „Ég hef þráð þig svo heitt," bætti hann við og breiddi út faðminn og hún hvarf inn í hann. „Elsku pabbi," sagði hún og sleit sig lausa úr fangi hans, hljóp að dyrunum og kallaði út: „Kokmiðið, krakkar. Þetta er húsið hans pabba."

   Jón feiti horfði glaður og undrandi á er húsið hans fylltist af börnum.


Örsaga 001: Lífselixírinn

 

Jón gamli kreppti og sperrti tærnar til skiptis í smástund áður en hann reis upp í rúminu og settist fram á rúmstokkinn. Hann leit aftur á klukkuna svona til að fullvissa sig um að uppsestur sýndi klukkan sama tíma og þegar hann lá út af á koddanum. Hann teygði tána í inniskóna og dró þá að sér, stakk fótunum í þá og reis síðan rólega upp og tók fyrstu skref morgunsins en þau voru alltaf erfiðust.

Vegalengdin fram á bað var nógu löng til að liðka hann það mikið að hann gat staðið uppréttur (en þurfti ekki að sitja eins og kelling) og kastað af sér vatni, þessari mjóu bunu sem hann varð alltaf að bíða eftir, alveg sama hvað honum var mikið mál. Að því loknu þó hann hendur sínar, hóstaði slýi næturinnar í vaskinn og burstaði tennurnar. Nú var hann orðinn það liðugur að hann gat gengið fram í eldhús og sett vatn í ketilinn.

Jón gamli hellti alltaf fyrst upp á kaffi handa konu sinni og síðan upp á te handa sjálfum sér. Hann hafði þann vana á að hita kaffibrúsann með því að láta heitt vatn renna í hann úr krananum og gat ekki dásamað nógu mikið hvað það var gott að hafa varmaskipti á heitavatnslögninni. Síðan setti hann trektina í brúsann og kaffipokann í trektina. Næst hitaði hann tekönnuna sem hann drakk úr á sama hátt og stillti henni upp við brúsann.

Jón gamli leit ekki við tegrisjum heldur notaði hann síu sem hann fyllti af lausu tei og setti í tekönnuna sína. Þá tók hann kaffistampinn, setti þrjár kúffullar skeiðar í trektina því hann vissi að konan vaknaði ekki á öðrum bolla nema kaffið væri vel sterkt.

En þennan morgun fór eitthvað úrskeiðis. Þegar Jón gamli hellti síðustu kaffiskeiðinni í trektina, féllu þrjú kaffikorn niður í tekönnuna hans. Jón varð einskins var og hellti heita vatninu í tekönnuna og hélt síðan áfram að hella upp á kaffið.

Þegar því var lokið setti hann ketill frá sér, hrærði aðeins með síunni í teinu, tók hana síðan upp og tæmdi úr henni í ruslið. Eftir það skolaði hann síuna og hengdi hana upp á sinn stað.

Jón gamli fékk sér nú fyrsta tesopa dagsins. Hann var vanur að finna til sérstaks unaðar þegar heitt teið rann niður kverkar hans en þennan morgun var eins og einhver unaður öllu ærði færi um líkama hans. Hann fann hvernig hann styrktist allur. Þrautir hurfu á brott, heilinn var skýr eins og komið væri fram á miðjan dag og hann búinn að innbyrða allt úr dagblöðunum.

Ekki hafði Jón gamli grænan grun um hvað var að gerast í líkama hans. Hann hafði af algjörri tilviljun hitt á rétta blöndu Lífselixírsins. Það var hann sem var að umbreyta líkama hans, yngja hann um áratugi og gefa honum horfinn kraft og orku. Hann þurfti bara að klára úr könnunni og láta lífsvatnið hafa sinn gang, þá hefði hann verið lifandi sönnun þess að hinn eini og sanni Lífselixír var ekki hindurvitni og hugarburður heldur hinn eini sanni brunnur lífsins.

Jón gamli smjattaði aðeins og var ekki alveg nógu hress með bragðið svo hann teygði sig í sykrið og bætti hinum vanalegu tveimur teskeiðum út í teið og hrærði.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband