Er „mjúk“ ferðamennska verkefni fyrir þjóðfræðinga?

Hérað_2010_MG_0723 Í þessari ritgerð ætla ég að skoða hugmyndir  Elke Dettmer í grein hennar: Moving Toward Resopnsible Tourism: A Role for Folklore (1994), en þar tekur hún fyrir kosti og galla í uppbyggingu og þróun ferðamála í Kanada, einkum á Nýfundnalandi og Labrador. Elke Dettmer er ferðamálafrömuður og doktor í þjóðfræði. Hún bendir á það sem miður fer og hvað sé til ráða. Það sem vekur hvað mesta furðu er hve gjörn við erum á að endurtaka mistök annarra en lærum ekki af reynslu þeirra. Við lestur greinarinnar rifjaðist upp fyrir mér samsvarandi þróun íslenskrar ferðamála . Einnig kannaði ég þrjár bækur sem snerta þetta efni hver á sinn hátt: People and Tourism in Fragile Enviroments, ritstýrt af Martin F. Price (1996) en þar fjallar Valene L. Smith um The Inuit as Hosts: Heritage and Wilderness Tourism in Nunavut. Önnur athyglisverð grein um þann þátt ferðamennsku sem íslenskir ferðamálafrömuðir hafa gert út á en þó ekki í því mæli sem greining fjallar um er eftir Denise Brennan og nefnist Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex í bókinni Conformity and Conflic, Readings in Cultural Anthropology, ritstýrt af James Spradley og David W. McCurdy (2006). Þá er smátilvitnun í ritið Menningartengd ferðaþjónusta sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu (2001). Að lokum minnist ég á 24 ára gamla hugmynd en fleiri hafa fengið þá hugmynd og útfært á sinn hátt.

Í upphafi greinar sinnar varar Elke  við því að óheft ferðamennska geti valdið óendurkræfum spjöllum á náttúrulegu og menningartengdu umhverfi íbúanna sem er einmitt sú tekjulind sem þeir gera út á, en það myndi samsvara Þingvöllum hjá okkur. Algengustu fylgifiskar gróðavænlegrar ferðamennsku eru mengun, yfirfullir ferðamanna-staðir og hvekktir eða sárir íbúar.

Þá ræðir Elke  um kynningarefni Kanadamanna sem lá frammi á ferðamála-ráðstefnum The International Tourism Exchange (ITB) sem hún sótti í Berlín 1987 og 1988. Segir hún að Kanadamenn fylgist ekki vel með, því kynningarefni þeirra var illa upp sett, klisjukennt og „steríótýpískt“ sem var undirstrikað með því að tveir fjallalögreglu-menn (þessir í rauðu jökkunum með skátahattana) stóðu við innganginn.

Og enn syrti í álinn því bæklingarnir voru fullir af villum og þá einkum hvað varðaði Nýfundnaland og Labrador. Skýrasta dæmið var að Funkeyju, sem er langt úti í Atlantshafi og friðlýst var ruglað saman við Fogoeyju, en þar er mikið fuglalíf og fiskiþorp sem er þekkt fyrir alþýðutónlist. Þýðingarvillur voru þó nokkrar og ein sérstaklega tiltekin þar sem uppskera á fágætum berjum er þýtt á þýsku sem „bökuð epli“ en epli vaxa ekki á Labrador. Tekið var fram að mikið væri um fornar hefðir og að íbúarnir væru þeir hamingjusömustu, þægilegustu, vingjarnlegustu og gestrisnustu   og minnir þetta óneitanlega á íslenskt kynningarefni að því undanskyldu að ekki er gert út á kynlíf, en víkjum að því síðar. Elke telur að höfundar hafi ekki leitað til upprunans heldur notast við upplýsingar frá þriðja aðila sem höfðu brenglast á milli manna. Stærstu meinsemdina telur hún þá að höfundar höfðu aldrei komið á staðinn.

Á ráðstefnunni í Berlín 1987 átti Elke viðtal við Jost Krippendorf, forstjóra „The Institute for Leisure and Tourism Research“ (Rannsókarstöð tómstunda og ferðamennsku), í Bern í Sviss. Jost er talinn góður gagnrýnandi og mikill athafnamaður hvað viðkemur endurskoðun ferðamála. Telur Jost að Kanadamenn taki ekki nóg tillit til umhverfisáhrifa ferðamennskunnar og hún sé iðulega falin „áhugamönnum“ sem endurtaki sömu mistök og aðrir hafi gert annars staðar á hnettinum.

Því miður var ferðamennskan á Nýfundnalandi undirlögð af  gróðasjúkum kaupa-héðnum og valdasjúkum ríkisstarfsmönnum á stöðugum flutningi milli ráðuneyta svo þeir öðluðust ekki sérþekkingu á viðfangsefninu en hugsuðu eingöngu til næstu kosninga.

- Ég fann fljótt fyrir því að þjóðfræðingar voru ekki mikils metnir í „raunheimum“, segir Elke, og að jafnvel þótt hún greindi frá viðskiptaferli sínum á ferðamálasviði og kom með hugmyndir að markaðssetningu var tillögum hennar hafnað. Hún vildi sýna fram á að hugmyndir hennar stæðust svo hún lagðist í ferðalög og kynningarstarf þar sem hún kynnti smáfyrirtæki eins og „ból og bita“, smáhýsi við bændabýli, smábátaferðir og gönguleiðir, öllum þeim er ljá vildu henni eyra. Hún fór í tilraunaferðir með vini og kunningja og skipulagði ferðir fyrir aðra. Í árslok 1987 komst hún í kynni við fyrirtækið Naturfreunde eða „Vini Náttúrunnar“ (með stórum staf) og tveimur árum síðar tóku þeir ferðaáætlanir hennar um Nýfundnaland inn í ferðaþjónustu sína.

- Ég varð fyrir miklum áhrifum af þeirri gagnrýni sem kom fram hjá ITB í Berlín á þá stefnu sem ferðamennskan tekur hverju sinni, segir Elke Dettmer, en þar fylgjast menn gaumgæfilega með þessum málum. Hún gekk í félagsskapinn Gruppe Neues Reisen (Nýjar ferðir) sem samanstendur af fagfólki á ýmsum sviðum sem hafði áhyggjur af þeim vandamálum sem ferðamennskan skapaði. Á fundum sínum komust þeir að þeirri niðurstöðu að þróun ferðamála hvers staðar ætti að miða við íbúana sjálfa og menningartengt umhverfi þeirra. Því tóku þeir saman eftirfarandi töflu sem nokkurs konar „Bænaskrá“ fyrir ferðaþjónustuna í heild:



Tafla 1. Tillaga  Vinnuhóps um skilning á ferðamennsku (Bænaskjal)
Gestgjafinn 
Við þörfnumst ferðamanna, þeir skapa atvinnu og tekjur. Við vitum að þeir ógna menningu okkar og umhverfi, því viljum við stjórna og hafa eftirlit með þróun ferðamála svo land okkar viðhaldi raunhæfri arðsemi og félagslegu og náttúrulegu umhverfi.Við viljum hafa stjórn á eigin landi. Við fylgjum ákveðinni landnýtingarstefnu. Við takmörkum framkvæmdir eftir svæðum. Við höfnum sölu á landi til annarra en íbúa svæðisins. Við hvetjum til nýtingar á eldra húsnæði og innra skipulags.
Ferðamaðurinn 
Þegar ég er ekki heima hjá mér er mjög freistandi að gera eitthvað sem ég mynd aldrei gera þar. Ég ætla að forðast þetta með því að gagnrýna sjálfan mig þegar ég er í fríi og halda aftur af mér. Ég vil skemmta mér án þess að móðga eða meiða aðra.Fólkið sem býr á þeim stöðum sem ég heimsæki á sér aðra menningu en mína. Mig langar að vita meira um land og þjóð. Ég sem mig að siðum þeirra en haga mér ekki eins og aðalborinn. Spyr í stað þess að svara, kanna í stað þess að finna.
Ferðaþjónustan 
Við lítum á viðskiptavini okkar sem fólk er nýtur lífsins og vill að fríið verði „skemmtilegasta vika ársins“. Við vitum einnig að áhugasömum, nærgætnum og umhverfisvænum ferðamönnum fjölgar stöðugt. Við reynum af fremsta megni að hvetja til þessarar tegundar ferðamennsku án þess að „prédika“ yfir viðskiptavinum okkar.Við höfum áhugasvið, sjálfstæði og réttindi gestgjafanna í huga. Við virðum lög þeirra, siði, hefðir og menningararfleið. Við megum aldrei gleyma að við sem ferðamálafrömuðir og ferðamenn erum gestir þeirra.
Fengið úr Tourism with Insights: Our Proposal by Working Group "Tourism with Insight and Understanding 

Dreifbýlið, langt frá iðnmenningu stórborganna eða það svæði sem ferðamenn sækja hvað mest er jafnframt eftirsótt af þjóðfræðingum. Vegna reynslu sinnar og þekkingar geta þeir stuðlað að og byggt upp ferðamennsku með sýningum og hátíðarhöldum sem þeir koma á laggirnar með heimamönnum. Líta má á söfnun myndlistar og handíða fyrir söfn sem fyrstu skref  að minjagripagerð.

Þau svæði sem enn má heita að séu „ósnert“ eru í hættu en með því að fræða alþýðuna um kosti og galla ferðaþjónustunnar getur hún tekið upplýsta ákvörðun um mismunandi tegundir ferðaþjónustu og forðað henni frá því að falla í gamlar gryfjur.

Að lokum segir Elke Dettmer að sú kunnátta sem þjóðfræðingurinn öðlast í námi sínu og starfi geti hjálpað til að breyta viðteknu áliti ferðamannsins á gestgjafanum og gert hann skilningsríkari um þjóðina sem hann heimsækir og menningu hennar. Þetta er stórt og mikið verkefni því ferðamennskan er alls staðar nálæg.

Þessi nálægð ferðamennskunnar kemur glöggt fram í bókinni People and Tourism in Fragile Enviroments en þar segir Valene L. Smith frá staðnum Nunavut sem er við Heimskautsbauginn í norðaustur Kanada. Þetta svæði var formlega afhent innfæddum, Inuitum, 1. apríl 1999 en sú gjörð hafði verið sex ár í undirbúningi. Það sem Valene hræðist hvað mest er að ferðamenn „uppgötvi“ að þarna sé einn af síðustu stöðunum á jörðinni þar sem fólkið „lifir á landinu“, hægt að fara í ferðir á hundasleða og sjá fisk hanga í hjöllum. Er hún ekki einmitt að koma þessum upplýsingum á framfæri með þessari grein — eða er þetta viðvörun um að gæta sín?

Aðgát er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar litið er yfir kynningarefni íslenskra ferðamálafrömuða síðustu áratugina. Þrjár stúlkur í einni lopapeysu og óteljandi tilvitnanir í skemmtanalífið í Reykjavík leiða til þess að „kynlífstengd ferðamennska“ eða „kynlífstengd ferðaþjónusta“ er frekar þau hugtök sem leita á hugann.

Í bókinni Conformity and Conflict, Readings in Cultural Anthropology, skrifar Denise Brennan grein sem nefnist Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex. Þar lýsir hún því hvernig evrópskum karlmönnum er beint til þorpsins Sosúa (á ekkert skylt við SOS) í Dóminíkanska lýðveldinu á austurhluta eyjarinnar Hispaníólu í Vestur-Indíum. Kvenfólk streymir til þorpsins í þeim tilgangi að kynnast og helst giftast erlendum ferðamanni. Mörg dæmi eru þess að erlendir karlmenn eigi sér „kærustu“ sem þeir halda uppi með peningasendingum. Eins og verða vill lifa sumar kvennanna fyrir augnablikið en aðrar eru skynsamari og koma sér upp fyrirtæki til frambúðar en „fimm miljón króna spurningin“ verður: Hver græðir hvað á hverjum?  Eða eigum við að beita ískaldri íslenskri skynsemi og segja: Svo flýgur hver sem hann er fiðraður?

Þótt íslenska Samgönguráðuneytið minnist ekki á  „kynlífstengda ferðamennsku“ í bók sinni um Menningartengda ferðaþjónustu (2001) sem er Samantekt og niðurstöður nefndar sem fjallaði um samnefnt efni má ýmislegt lesa út úr fjórðu greininni:

Nútímamenning Íslendinga einkennist af miklum áhuga á menningarstarfsemi í víðustu merkingu orðsins. Þessi áhugi kemur alls staðar fram á flestum sviðum lista og fræða, og er óháður stærð byggðarlaga. Jarðvegur fyrir menningartengda ferðaþjónustu sem atvinnugrein er því frjór.(bls. 7) 

Það var hálfgert menningarferðalag í víðri merkingu orðsins að fara í fyrsta sinn einn með foreldrum sínum að Mývatni, þá á tíunda ári (1954). Við skoðuðum Námaskarð, vatnið, eyjarnar og fundum fyrir mýinu, en það sem sat eftir  í barnsminninu voru fyrstu kynni mín af Dimmuborgum. Foreldrar mínir leyfðu mér að ráfa um í langan tíma og ég gleymdi mér alveg í þessum undraheimi, því ég var einn í honum. Seinna heimsótti ég staðinn með syni mínum sem þá var sex ára og skyldfólki. Fleira fólk var þá á staðnum, nokkrir bílar og sandur farinn að hlaðast upp í „borginni“ en samt voru einhverjar leifar af töfrunum til staðar. Enn síðar mættum við hjónin ásamt sonarsyni til að sýna honum landið sitt. Tvær stórar rútur fullar af erlendum ferðamönnum voru mættar á staðinn, eflaust af skemmtiferðaskipi í Akureyrarhöfn. Borgin var að hverfa í svartan sandinn og sonarsyninum fannst fátt um. Hvort það var vegna fólksins eða hugarfarsbreytingu nýrrar kynslóðar læt ég ósagt en ég fann fyrir töluverðum söknuði.

Hugmynd mín að „mjúkri ferðamennsku“ kviknaði er ég var við tökur á kvikmyndinni Gísla saga Súrssonar í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar (1982). Eitt atriðið krafðist þess að siglt yrði inn fjörð sem væri gróðri vaxinn milli fjalls og fjöru og höfðu útsendarar Ágústs einmitt fundið slíkan fjörð. Ég vil ekki gefa upp staðsetningu hans því þá félli ég í sömu gildruna og Valene L. Smith, en tilfinningin að sigla inn fjörðinn, því ekki var hægt að fara þangað akandi, er ólýsanleg og fannst okkur sem við værum að sjá landið okkar í fyrsta sinn.

Hugmyndin var kannski ómeðvitað fengin að láni úr kvikmyndinni West World (1973) þar sem gestum í skemmtigarði bauðst að klæða sig upp, til dæmis sem kúrekar og lifa lífinu í Dodge City. Mín hugmynd var að taka fjörð eins og þennan og byggja skála og umhverfi að fornum sið og gefa gestum tækifæri til að lifa fortíðina — og þá meina ég fortíðina. Tilvonandi gestum yrði ekið í gluggalausum langferðabíl á ákveðinn stað þar sem þeir væru „strípaðir“ af öllum nútíma. Síðan sigldi þeir inn fjörðinn á langskipi, fengi vinnu sér til viðurværis og gistingu í skálanum eða öðrum híbýlum um lengri eða skemmri tíma. Allt væri frá tímanum um árið 1000, matur, klæðnaður, og engin vatnssalerni.

Í bók sinni Ferð um fornar sögur — Noregsferð í fótspor Snorra Sturlusonar segir Þorgrímur Gestsson frá Víkingabólinu að Hrauki:

... Sjálfur víkingaheimurinn er á neðri hæðinni þar sem komið hefur verið upp haganlega gerðum eftirlíkingum af híbýlum manna á víkingatíð og upp um veggi heimskort er sýna ferðir víkinga – meðal annars til Íslands og áfram til Vínlands hins góða. Fortíðarhús þetta stendur niður við vatnið og þar sem ég stóð á veröndinni fyrir utan veitingabúðina veitti ég athygli ungri konu í vaðmálskjól að ganga frá litlum, fornfálegum innanskerjabáti við bryggju. Ég gaf mig á tal við hana og hún útskýrði fyrir mér að hápunktur starfseminnar væru ferðir norður um vatnið til næturstaðar þar sem börnum jafnt sem fullorðnum væri boðið til ævintýralegrar veru um lengri eða skemmri tíma við svipaðar aðstæður og forfeðurnir bjuggu á sinni tíð. (bls. 50) 

Niðurstaða mín er sú sama og Elke Dettmer eða sú þversögn að ferðamennska eyðileggur ferðamennsku (byltingin étur börnin sín). Ef við ætlum að gera út á menningartengda (mjúka) ferðamennsku verðum við að gæta okkar — og jafnvel gæta okkar enn betur ef við gerum það ekki. Við ættum að skoða „Bænaskrána“ og athuga hvort við getum notfært okkur boðskap hennar því margt í henni er í rauninni heilbrigð skynsemi. Ferðamennska er ekki bara „bísness“ og velgengni hennar mælist ekki eingöngu í krónum og aurum hún er líka verkefni fyrri þjóðfræðinga.

  Heimildaskrá 

Brennan, Denise (2006). Conformity and Conflict, Readings in Cultural Anthropology. Í James Spradley og David W. McCurdy (Ritstj.), Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex (bls. 355-369). Boston: Pearson.

 

Dettmer, E. (1994). Putting Folklore to Use. Í D. Hufford (Ritstj.), Moving Toward Responsible Tourism: A Role for Folklore (bls. 187-200). Lexington: University of  Kentucky Press.

 

Samgönguráðuneytið (2001). Menningartengd ferðaþjónusta. Reykjavík

 

Smith, Valene L., Harrison, David og Price, Martin F., o.fl. (1996). People and Tourism in Fragile Enviroments. Í Martin F. Price (Ritstj.), The Inuit as Hosts: Heritage and Wilderness Tourism in Nunavut (bls. 41). Chichester: John Wiley & Sons.

 

Þorgrímur Gestsson (2003). Ferð um fornar sögur. Noregsferð í fótspor Snorra Sturlusonar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag — Sögufélag.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband