Örsaga 003: Afmælisljóðið

Undir morgun skreið ung stúlka, á að giska átta til tíu ára gömul, upp í til Jóns leirskálds og hreiðraði um sig í fangi hans.

„Eigum við að spúna?“ spurði hún „liggja saman eins og teskeiðar í skúffu.“

Þótt hún væri ekki eldri en þetta vissi Jón alveg hver hún var. Skáldgyðjan sjálf.

„Ég veit hvað spúna er,“ svaraði Jón nývaknaður og fannst þessi ameríkansering hálf kjánaleg.

„Þú ert yngri en ég hélt,“ sagði Jón.

„Ég er á þeim aldri sem skáldið vil hafa mig,“ svaraði hún.

„En ég er ekki skáld og ég minnist þess ekki að ég hafi hugsað mér þig á einhverju sérstökum aldri,“ sagði Jón.

„Kannski þig langi til að eiga dóttur á þessum aldri,“ sagði hún.

„Það gæti verið,“ hugsaði Jón eiginlega frekar en að segja það upphátt.

„Eigum við þá ekki að byrja?“ spurði hún.

„Byrja?“ spurði Jón á móti.

„Ætlaðirðu ekki að yrkja ljóð til konunnar út af sextugsafmælinu?“

„Jú, ég hef verið að velta því fyrir mér, en einhvern veginn ekki komið því í verk.“

„Ég get ekki ort fyrir þig,“ svaraði hún, „ég er bara innblástur, þú verður að yrkja.“

„Allt í lagi,“ svaraði Jón. „Um okkar fyrstu kynni datt mér í hug:

 

Á Hressó þér algebru kenndi

þú sagðir: „Ég á það bendi,

að mér þykir það leitt

en ég skil ekki neitt

enda fer ég betur í hendi.“

 

„Þetta er nú frekar slappt,“ sagði hún. „Hvaða bragarháttur er þetta eiginlega?“

„Þetta er limra,“ svaraði Jón, „veistu það ekki?“

„Ég veit ekki neitt,“ svaraði hún, „Ég er bara innblásturinn, vindurinn sem knýr orgelið, þitt er að spila á nóturnar.“

 

   Nú var þögn um hríð en þá sagði hún: „Er þetta allt og sumt?“

„Nei, hún spáir í bolla, þótt það sé ekki á hvers manns vörum og því datt mér í hug:

 

Þótt bersögul sé borgin

þá berst það ekki út á torgin

að hún spáir í bolla

og sér margan skolla

skjótast um kaffikorginn.“

 

„Þessi er ekki svo vitlaus, viltu meiri innblástur?“ spurði hún eins og hún væri að bjóða brjóstsykur.

„Já, takk,“ svaraði Jón og kættist aðeins. „Hún vinnur mjög mikið en hefur samt tíma til að sinna því sem hún hefur áhuga á eins og að syngja í kórum, yrkja sálma og...“

„Og hvað gerir þú?“ spurði hún.

„Ég sé um matinn,“ svaraði Jón.

„Geturðu komið þessu saman?“ spurði hún.

„Hvernig væri:

 

Hún Sigríður kann ekki að slugsa

og því hef ég verið að hugsa

að sálma hún syngur

og sér um fingur

hún vefur sextugum uxa.“

 

„Þú ert alveg vonlaust keys,“ svaraði hún og stökk fram úr rúminu.

 

Jón leirskáld horfði á eftir henni út um svefnherbergisdyrnar og hugsaði með sér að eflaust færi aldur Skáldagyðjunnar eftir þroska skáldsins, þótt hún kynni að koma sér hjá því að segja það berum orðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband