Árið 2013 Verðlaunaritgerð sem birtist á bls.7 í 29.tbl. Lesbókar Morgunblaðsins 13. Október 1963

Mikið hef ég verið svartsýnn ungur maður, því ritgerðin byrjar á miklum heilaspuna um það hvernig Jörðin geti farist á hinn aðskiljanlegasta hátt. Þetta nær yfir rúmlega eina A4 síðu af þeim sjö sem greinin tekur í dag, eftir að ég náði í hana á vefinn og setti upp í Word 2013.

Ritgerð: Ég lýsi því svo yfir að þar með sé svartsýninni lokið, við séum komin til ársins 2013 í byrjun júlí og sólin skín. Við erum stödd á háu fjalli, lítum yfir Suðurlandsundirlendið og þar eru endalausar raðir uppblásinna stórra gróðurhúsa sem rækta grænmeti. Síðan er ræktun lýst í löngu máli; minnst á gerlagróður og DNA ræktun – erfðabreyttan gróður?

Hvað gerðist? Verst að grænmetið er allt soðið niður en ekki dreift fersku.  Í dag er uppblásið íþróttahús í Hveragerði og rætt um að byggja stórt og mikið gróðurhús í Grindavík til að rækta tómata til útflutnings. Þó nokkur umræða hefur verið um erfðabreytt korn og önnur matvæli. ‒ Ef til vill ekki alveg það sem ég átti við, en uppblásið hús og stórt gróð...

Ritgerð: Hvað með blessaðar kýrnar og önnur húsdýr? Hér nefni ég í fyrsta skipti  „rafmagnsheila“ sem sér um velferð dýranna sem ganga laus í tilbúnum dölum. Mjaltir eru vélrænar og það útskýrt með orðinu automatískar, stjórnað af rafmagnsheila sem fylgist með velferð dýranna. Ég segi reyndar að menn umgangist ekki dýrin nema þá helst dýralæknar og ‒ takið eftir ‒ dýrasálfræðingar! Hestar eru einkum notaðir til skemmtana og útreiða.

Hvað gerðist? Rafmagnsheili verður framvegis nefndur „tölva“ í þessari grein. Í nokkrum kúabúum á landinu ganga kýr lausar og láta mjólka sig sjálfvirkt (vélrænt) þegar þeim sýnist og tölva skráir allt. Dýrasálfræði er viðurkennt fag og eru hestar notaðir í annað en útreiðar?

Ritgerð: Ég tel að útgerðarfélög verði dottinn úr „tízkunni“ en sjálfvirkir, mannlausir, egglaga togarar sendir á miðinn og öllu sé stjórnað af tölvum. Björgunarbátar eru líka egglaga og því lokaðir. Lesa má úr textanum að útgerðin sé þjóðnýtt og „Veiðimiðstöðin“ sjái um útgerðina og bregðist við, bili báðar tölvurnar í togaranum. Greinilega kemur fram að veitt er með rafmagni og aflinn verkaður um borð. Skemmtiferðaskip á loftpúða með öllu sem til þarf og kölluð „Fljótandi borgir“.

Hvað gerðist? Útgerðarfélög hafa aldrei verið sterkari, enda hirða þau ágóðann sem þjóðin ætti að njóta. Þótt togarar sökkvi ekki lengur eru þeir ekki egglaga, heldur hefur verklag breyst til batnaðar en björgunarbátar eru nú lokaðir. Karlinn situr reyndar enn í brúnni, en hann situr inn í hrúgu af flatskjáum sem sýna veiðislóð, öldugang, dýpt, veður og hver veit hvað ‒ nema karlinn sjálfur. Afli hefur verið verkaður um borð í nokkuð langan tíma, en sú verkun virðist nú vera að á leiðinni í land að nýju og það er vel.  ‒ Í nýjustu rannsóknum á veiðiaðferðum eru gerðar tilraunir með að veiða með ljósi og dælubúnaði. Skemmtiferðaskip eru fljótandi borgir með öllu, en á loftpúða? Það mátti reyna.

Ritgerð: Reykjavík; einnar hæðar íbúðarhús en háar og glæsilegar byggingar fyrir iðnað, tækni, lækna og lögfræðinga. Skrifstofumaðurinn vinnur á tölvu og getur unnið fyrir hvern sem er hvar sem er á landinu. Mikill gróður á götum Reykjavíkur. Vetrarföt með innbyggðum hita ‒ eða kulda, ef það verður of heitt. Hljóðlausir lofbílar og sekt við að valda hávaða. Allir flutningar neðanjarðar og jarðgöng um landið þvert og endilangt.

Hvað gerðist? Einnar hæðar íbúðarhús eru helst í úthverfum en miklir skrifstofuturnar eru víða í Reykjavík. Þú getur unnið á tölvu hvað sem er, hvar sem er, fyrir hvern sem er. Gróður á götum? Svo mikill að skipta þarf um tré svo ræturnar eyðileggi ekki gangstéttirnar. Vetrarföt eru kannski ekki með innbyggðum hita, en mikið eru þau betri en nælonskyrturnar og gerviefnafrakkarnir í denn. Hvalfjarðarjarðgöng voru ekki grafin fyrr en á árunum 1996 til 1998, rúmum þrjátíu árum síðar, en þeim fjölgar stöðugt.

Ritgerð: Skrifstofumaðurinn á heimleið í svifbíl sem ratar sjálfur heim. Heima er konan að tala í þráðlausan sjónvarpssíma. Hann kveikir á þrívíddarsjónvarp með Hi-Fi-elektrónískum stereóhljómi og hlustar á afganginn af framhaldsleikriti... Heimilistölvan hafði skynjað að hann sofnaði og tók upp restina af leikritinu. Sendingin var um gervitungl. Heimilisfólk notar plastkort (reyndar í barmi) í stað lykla sem tölvan les. Drengurinn les upp stíl á íslensku og tölvan þýðir hann yfir á spænsku. Stúlkan les upp prjónamynstur sem tölvan prjónar, gerir hnappagöt og festir tölur. Merkilegur ís- eða kæliskápur með snúanlegum hillum í útvegg hússins með hurðum að utan og innan.

Hvað gerðist? GPS þykir ekki merkilegt lengur, en ætli ég hafi ekki fengið þessa dellu með svifbíla úr stuttum teiknimyndum sem voru sýndar á undan aðalmyndunum í Austurbæjarbíói. Þráðlaus sjónvarpssími heitir víst „smart sími“ í dag. Þrívíddarsjónvarp er raunveruleiki en hljóðtækin heita „heimabíó“ eða eitthvað álíka. Hreyfiskynjarar eru notaðir sem þjófavörn. Ég eignaðist 22ja tommu svart hvítt túbusjónvar 1966 en gat ekki tekið upp lifandi mynd úr sjónvarpi fyrr en 1981. Ég var með þeim fyrstu sem keyptu VHS tæki og tók upp sjónvarpsþættina COSMOS með Carl Sagan. Plastkort sem lyklar eru aðallega notaðir á hótelum; önnur plastkort þekkjum við sem greiðslukort og sem skilríki. Tölvur geta þýtt af einu tungumáli yfir á annað, en Google-þýðing á íslensku er auðþekkjanleg. Að lesa prjónavél fyrir svo hún prjóni var andvana fædd hugmynd. Kæliskápurinn kemur eflaust til af því að ég vann við heimkeyrslu á vörum til fínna frúa í Garðabænum þá um sumarið með glænýtt ökuskírteini í veskinu.

Ritgerð: Garðurinn er yfirbyggður með suðrænum gróðri, háfjallasól, sundlaug, grilli og sjálfvirkum bar. Á meðan þau skipta um föt fer sjálfvik ryksuga um húsið. Þau reykja trefjasígarettur. Gestirnir hafa með sér svolítið sjónvarpstæki sem er „barnapía“. Hægt er að snúa húsinu. Á morgnana hefur tölvan sinnt því sem henni var falið kvöldið áður. Hugmyndir um kostnað, verð á rafmagni og brjálaða rafmagnsheila.

Hvað gerðist? Garðar eru ekki yfirbyggðir en fólk hefur háar girðingar í kringum garða sína og notar útihitara svo hægt sé að grilla á kvöldin. Sjálfvirkar ryksugur eru til af mörgum gerðum og fást í næstu raftækjaverslun. Trefjasígarettan varð að Rafsígarettu. Sjónvarpstæki sem barnapía heitir „app“ fyrir smartsíma. Til hvers að snúa húsinu ‒ bara til þess að horfa á sólarlagið? Nú er verð komið í fleirtölu, rafmagn er ekki svo dýrt, en menn „hakka“ sig inn í tölvur svo þær tína vitinu.

Ritgerð: Lokaorðin eru um flugmálin, sumarbústað á Tunglinu og annað tengt geimnum. Merkilegt að barneignir skuli takmarkaðar við tvö börn. Og svo þérar maður lesandann að lokum og segir: „...að ef þér trúið því, sem þér lásuð, má búast við að það rætist.“

Hvað gerðist? Gagarín fór út í geiminn 12. Apríl 1961 og ég skrifaði þessa ritgerð sumarið 1963, uppfullur af hugmyndum um geimferðir í framtíðinni. Takmarkanir á barneignum 1963? Fyrsta „glasabarnið“ fæddist 1978 og þéringar lögðust af á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar.

Þökk fyrir lesturinn,

Jón Axel Egilsson ‒ 50 árum síðar


Til varnar íslenskri tungu

Kreppukarlinn

Í tilefni þess að ný ríkisstjórn ætlar að efla íslenska menningu og einnig að RÚV fer af stað með þátt um íslenskt mál, Orðbragð, í haust, vil ég leggja mitt að mörkum með þessari stuttu grein.

Ekki segja „hérna“

Hugsaðu áður en þú talar. Ef þú hugsar ekki hraðar en þú talar, skaltu varast að segja „hérna“ í öðru hvoru orði eins og fjórir af hverjum fimm íslendingum, því fátt sker jafnilla í eyru. Ef þú hefur ekki tekið eftir þessu, skaltu hlusta á viðtalsþætti í útvarpi og sjónvarpi, t.d. Kastljósið eða Kiljuna og Silfur Egils, því Egill er fundvís á menn sem segja hérna, sko og sem sagt. Ég setti tvö verstu dæmin á Youtube.com undir: „Silfrið hérna Óli Björn“ og „Illskan öll

Forðastu að hefja mál þitt eða svar með „Ammmmm...“ sem smeygði sér inn í íslenskuna með amerískum sjónvarpsþáttum. Ekki segja: „Aaaaa...“ og allra síst með kokhljóði eða eitthvað því mun heimskulegra, sé það hægt, ef þú þarft að hugsa þig um. Aldrei segja „sko“ í lok setningar.

 

Hvorki segja né skrifa „sem sagt“

... nema þú hafir útskýrt eitthvað ítarlega eða í löngu máli, þá dregur þú mál þitt saman og segir: „Sem sagt, þannig er farið að því...“ Fjöldi Íslendinga ofnotar „sem sagt“ í daglegu tali, t.d. fréttamenn, viðmælendur þeirra og stjórnendur sjónvarpsþátta  - að ógleymdum þýðendum norrænna sakamálasagna sem nota það allt að þrisvar til fimm sinnum á sömu blaðsíðunni.

Ég benti síðastnefnda hópnum á þetta í grein í Fréttablaðinu 10. apríl 2012, „Er sem sagt, sko?“, (bls. 19) og útskýrði aðferð til að forðast það. Aðferðin felst í því að láta Word forritið finna „sem sagt“ og lýsa það upp með gulu – fylla skjáinn af blaðsíðum og þá er eins og einhver hafi pissað yfir handritið. Þetta er mjög sálræn upplifun og fær þann sem reynt hefur, að forðast „sem sagt“ eða annað sem hann/hún vill forðast að ofnota. Sjá Youtube.com: „Kiljan-sem-sagt

Aðeins einn „sem sagt“ þýðandi hafði samband við mig með tölvupósti. Hann taldi sig bundinn af Bernarsáttmálanum frá1887, (tók gildi á Íslandi1947) sem HKL hefði bent sér á og að hann yrði að vera trúr upphaflega handritinu. Ekki hefur HKL fylgt eigin ráðum er hann þýddi „Vopnin kvödd“ 1941 (Farwell to Arms) eftir Hemingway né við endurútgáfuna 1977. Fyrsta þýðing hans á titlinum var „Kveðja til vopnanna“, sem er afleit þýðing. HKL átti síðan í miklu stríði við þýðinguna; fékk ákúrur frá Kennarafélagi Suður-Þingeyinga fyrir aðför að íslensku ritmáli og alnafni hans, skólastjóri í Vestmannaeyjum, taldi um fjögur þúsund ritvillur áður en hann skrifaði ádeilugrein í Tímann.

En Sigfús Daðason, skáld, ritaði í varnargrein: „... var þýðing Halldórs mér einnig fyrsta lexía í þýðingarfræði, og mér lærðist þá þegar að frumtexti og þýðing er sitt hvað.“

 

Ekki tala í nafnhætti

Þjóðsagan segir að nýbúar hafi átt erfitt með beygingu íslenskra sagna, svo þeir notuðu nafnhátt í staðinn. Þeir sögðu: „Ég er ekki að skilja þetta“ í stað: „Ég skil þetta ekki“. Málhaltir Íslendingar tóku undir þetta og hófu að segja: „Herjólfur er ekki að sigla...“ í stað: „Herjólfur siglir ekki.“  Í lífstílsþætti var sagt: „Hvað ertu að nota á húðina... í stað: „Hvað notarðu á húðina?“ Í Útsvari var spurt: „Eruð þið ekki að finna fyrir því...“ i stað: „Finnið þið ekki fyrir því?“ Stórlax í viðskiptaheiminum sagði: „Hefur ekki verið að skila sama árangri...“ í stað: „Hefur ekki skilað sama árangri...“ Í tilefni ofangreinds þáttar um íslenskt mál á RÚV hófst grein í Fréttablaðinu á setningunni: „Við erum að fara að vaða í tökur á þessu.“... og dæmi nú hver fyrir sig.

Það versta við svona greinar er að þeir sem þyrftu að lesa þær gera það ekki, því bið ég þig, lesandi góður, að benda þeim á greinina sem þér finnst að ættu að lesa hana.


Er „mjúk“ ferðamennska verkefni fyrir þjóðfræðinga?

Hérað_2010_MG_0723 Í þessari ritgerð ætla ég að skoða hugmyndir  Elke Dettmer í grein hennar: Moving Toward Resopnsible Tourism: A Role for Folklore (1994), en þar tekur hún fyrir kosti og galla í uppbyggingu og þróun ferðamála í Kanada, einkum á Nýfundnalandi og Labrador. Elke Dettmer er ferðamálafrömuður og doktor í þjóðfræði. Hún bendir á það sem miður fer og hvað sé til ráða. Það sem vekur hvað mesta furðu er hve gjörn við erum á að endurtaka mistök annarra en lærum ekki af reynslu þeirra. Við lestur greinarinnar rifjaðist upp fyrir mér samsvarandi þróun íslenskrar ferðamála . Einnig kannaði ég þrjár bækur sem snerta þetta efni hver á sinn hátt: People and Tourism in Fragile Enviroments, ritstýrt af Martin F. Price (1996) en þar fjallar Valene L. Smith um The Inuit as Hosts: Heritage and Wilderness Tourism in Nunavut. Önnur athyglisverð grein um þann þátt ferðamennsku sem íslenskir ferðamálafrömuðir hafa gert út á en þó ekki í því mæli sem greining fjallar um er eftir Denise Brennan og nefnist Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex í bókinni Conformity and Conflic, Readings in Cultural Anthropology, ritstýrt af James Spradley og David W. McCurdy (2006). Þá er smátilvitnun í ritið Menningartengd ferðaþjónusta sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu (2001). Að lokum minnist ég á 24 ára gamla hugmynd en fleiri hafa fengið þá hugmynd og útfært á sinn hátt.

Í upphafi greinar sinnar varar Elke  við því að óheft ferðamennska geti valdið óendurkræfum spjöllum á náttúrulegu og menningartengdu umhverfi íbúanna sem er einmitt sú tekjulind sem þeir gera út á, en það myndi samsvara Þingvöllum hjá okkur. Algengustu fylgifiskar gróðavænlegrar ferðamennsku eru mengun, yfirfullir ferðamanna-staðir og hvekktir eða sárir íbúar.

Þá ræðir Elke  um kynningarefni Kanadamanna sem lá frammi á ferðamála-ráðstefnum The International Tourism Exchange (ITB) sem hún sótti í Berlín 1987 og 1988. Segir hún að Kanadamenn fylgist ekki vel með, því kynningarefni þeirra var illa upp sett, klisjukennt og „steríótýpískt“ sem var undirstrikað með því að tveir fjallalögreglu-menn (þessir í rauðu jökkunum með skátahattana) stóðu við innganginn.

Og enn syrti í álinn því bæklingarnir voru fullir af villum og þá einkum hvað varðaði Nýfundnaland og Labrador. Skýrasta dæmið var að Funkeyju, sem er langt úti í Atlantshafi og friðlýst var ruglað saman við Fogoeyju, en þar er mikið fuglalíf og fiskiþorp sem er þekkt fyrir alþýðutónlist. Þýðingarvillur voru þó nokkrar og ein sérstaklega tiltekin þar sem uppskera á fágætum berjum er þýtt á þýsku sem „bökuð epli“ en epli vaxa ekki á Labrador. Tekið var fram að mikið væri um fornar hefðir og að íbúarnir væru þeir hamingjusömustu, þægilegustu, vingjarnlegustu og gestrisnustu   og minnir þetta óneitanlega á íslenskt kynningarefni að því undanskyldu að ekki er gert út á kynlíf, en víkjum að því síðar. Elke telur að höfundar hafi ekki leitað til upprunans heldur notast við upplýsingar frá þriðja aðila sem höfðu brenglast á milli manna. Stærstu meinsemdina telur hún þá að höfundar höfðu aldrei komið á staðinn.

Á ráðstefnunni í Berlín 1987 átti Elke viðtal við Jost Krippendorf, forstjóra „The Institute for Leisure and Tourism Research“ (Rannsókarstöð tómstunda og ferðamennsku), í Bern í Sviss. Jost er talinn góður gagnrýnandi og mikill athafnamaður hvað viðkemur endurskoðun ferðamála. Telur Jost að Kanadamenn taki ekki nóg tillit til umhverfisáhrifa ferðamennskunnar og hún sé iðulega falin „áhugamönnum“ sem endurtaki sömu mistök og aðrir hafi gert annars staðar á hnettinum.

Því miður var ferðamennskan á Nýfundnalandi undirlögð af  gróðasjúkum kaupa-héðnum og valdasjúkum ríkisstarfsmönnum á stöðugum flutningi milli ráðuneyta svo þeir öðluðust ekki sérþekkingu á viðfangsefninu en hugsuðu eingöngu til næstu kosninga.

- Ég fann fljótt fyrir því að þjóðfræðingar voru ekki mikils metnir í „raunheimum“, segir Elke, og að jafnvel þótt hún greindi frá viðskiptaferli sínum á ferðamálasviði og kom með hugmyndir að markaðssetningu var tillögum hennar hafnað. Hún vildi sýna fram á að hugmyndir hennar stæðust svo hún lagðist í ferðalög og kynningarstarf þar sem hún kynnti smáfyrirtæki eins og „ból og bita“, smáhýsi við bændabýli, smábátaferðir og gönguleiðir, öllum þeim er ljá vildu henni eyra. Hún fór í tilraunaferðir með vini og kunningja og skipulagði ferðir fyrir aðra. Í árslok 1987 komst hún í kynni við fyrirtækið Naturfreunde eða „Vini Náttúrunnar“ (með stórum staf) og tveimur árum síðar tóku þeir ferðaáætlanir hennar um Nýfundnaland inn í ferðaþjónustu sína.

- Ég varð fyrir miklum áhrifum af þeirri gagnrýni sem kom fram hjá ITB í Berlín á þá stefnu sem ferðamennskan tekur hverju sinni, segir Elke Dettmer, en þar fylgjast menn gaumgæfilega með þessum málum. Hún gekk í félagsskapinn Gruppe Neues Reisen (Nýjar ferðir) sem samanstendur af fagfólki á ýmsum sviðum sem hafði áhyggjur af þeim vandamálum sem ferðamennskan skapaði. Á fundum sínum komust þeir að þeirri niðurstöðu að þróun ferðamála hvers staðar ætti að miða við íbúana sjálfa og menningartengt umhverfi þeirra. Því tóku þeir saman eftirfarandi töflu sem nokkurs konar „Bænaskrá“ fyrir ferðaþjónustuna í heild:



Tafla 1. Tillaga  Vinnuhóps um skilning á ferðamennsku (Bænaskjal)
Gestgjafinn 
Við þörfnumst ferðamanna, þeir skapa atvinnu og tekjur. Við vitum að þeir ógna menningu okkar og umhverfi, því viljum við stjórna og hafa eftirlit með þróun ferðamála svo land okkar viðhaldi raunhæfri arðsemi og félagslegu og náttúrulegu umhverfi.Við viljum hafa stjórn á eigin landi. Við fylgjum ákveðinni landnýtingarstefnu. Við takmörkum framkvæmdir eftir svæðum. Við höfnum sölu á landi til annarra en íbúa svæðisins. Við hvetjum til nýtingar á eldra húsnæði og innra skipulags.
Ferðamaðurinn 
Þegar ég er ekki heima hjá mér er mjög freistandi að gera eitthvað sem ég mynd aldrei gera þar. Ég ætla að forðast þetta með því að gagnrýna sjálfan mig þegar ég er í fríi og halda aftur af mér. Ég vil skemmta mér án þess að móðga eða meiða aðra.Fólkið sem býr á þeim stöðum sem ég heimsæki á sér aðra menningu en mína. Mig langar að vita meira um land og þjóð. Ég sem mig að siðum þeirra en haga mér ekki eins og aðalborinn. Spyr í stað þess að svara, kanna í stað þess að finna.
Ferðaþjónustan 
Við lítum á viðskiptavini okkar sem fólk er nýtur lífsins og vill að fríið verði „skemmtilegasta vika ársins“. Við vitum einnig að áhugasömum, nærgætnum og umhverfisvænum ferðamönnum fjölgar stöðugt. Við reynum af fremsta megni að hvetja til þessarar tegundar ferðamennsku án þess að „prédika“ yfir viðskiptavinum okkar.Við höfum áhugasvið, sjálfstæði og réttindi gestgjafanna í huga. Við virðum lög þeirra, siði, hefðir og menningararfleið. Við megum aldrei gleyma að við sem ferðamálafrömuðir og ferðamenn erum gestir þeirra.
Fengið úr Tourism with Insights: Our Proposal by Working Group "Tourism with Insight and Understanding 

Dreifbýlið, langt frá iðnmenningu stórborganna eða það svæði sem ferðamenn sækja hvað mest er jafnframt eftirsótt af þjóðfræðingum. Vegna reynslu sinnar og þekkingar geta þeir stuðlað að og byggt upp ferðamennsku með sýningum og hátíðarhöldum sem þeir koma á laggirnar með heimamönnum. Líta má á söfnun myndlistar og handíða fyrir söfn sem fyrstu skref  að minjagripagerð.

Þau svæði sem enn má heita að séu „ósnert“ eru í hættu en með því að fræða alþýðuna um kosti og galla ferðaþjónustunnar getur hún tekið upplýsta ákvörðun um mismunandi tegundir ferðaþjónustu og forðað henni frá því að falla í gamlar gryfjur.

Að lokum segir Elke Dettmer að sú kunnátta sem þjóðfræðingurinn öðlast í námi sínu og starfi geti hjálpað til að breyta viðteknu áliti ferðamannsins á gestgjafanum og gert hann skilningsríkari um þjóðina sem hann heimsækir og menningu hennar. Þetta er stórt og mikið verkefni því ferðamennskan er alls staðar nálæg.

Þessi nálægð ferðamennskunnar kemur glöggt fram í bókinni People and Tourism in Fragile Enviroments en þar segir Valene L. Smith frá staðnum Nunavut sem er við Heimskautsbauginn í norðaustur Kanada. Þetta svæði var formlega afhent innfæddum, Inuitum, 1. apríl 1999 en sú gjörð hafði verið sex ár í undirbúningi. Það sem Valene hræðist hvað mest er að ferðamenn „uppgötvi“ að þarna sé einn af síðustu stöðunum á jörðinni þar sem fólkið „lifir á landinu“, hægt að fara í ferðir á hundasleða og sjá fisk hanga í hjöllum. Er hún ekki einmitt að koma þessum upplýsingum á framfæri með þessari grein — eða er þetta viðvörun um að gæta sín?

Aðgát er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar litið er yfir kynningarefni íslenskra ferðamálafrömuða síðustu áratugina. Þrjár stúlkur í einni lopapeysu og óteljandi tilvitnanir í skemmtanalífið í Reykjavík leiða til þess að „kynlífstengd ferðamennska“ eða „kynlífstengd ferðaþjónusta“ er frekar þau hugtök sem leita á hugann.

Í bókinni Conformity and Conflict, Readings in Cultural Anthropology, skrifar Denise Brennan grein sem nefnist Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex. Þar lýsir hún því hvernig evrópskum karlmönnum er beint til þorpsins Sosúa (á ekkert skylt við SOS) í Dóminíkanska lýðveldinu á austurhluta eyjarinnar Hispaníólu í Vestur-Indíum. Kvenfólk streymir til þorpsins í þeim tilgangi að kynnast og helst giftast erlendum ferðamanni. Mörg dæmi eru þess að erlendir karlmenn eigi sér „kærustu“ sem þeir halda uppi með peningasendingum. Eins og verða vill lifa sumar kvennanna fyrir augnablikið en aðrar eru skynsamari og koma sér upp fyrirtæki til frambúðar en „fimm miljón króna spurningin“ verður: Hver græðir hvað á hverjum?  Eða eigum við að beita ískaldri íslenskri skynsemi og segja: Svo flýgur hver sem hann er fiðraður?

Þótt íslenska Samgönguráðuneytið minnist ekki á  „kynlífstengda ferðamennsku“ í bók sinni um Menningartengda ferðaþjónustu (2001) sem er Samantekt og niðurstöður nefndar sem fjallaði um samnefnt efni má ýmislegt lesa út úr fjórðu greininni:

Nútímamenning Íslendinga einkennist af miklum áhuga á menningarstarfsemi í víðustu merkingu orðsins. Þessi áhugi kemur alls staðar fram á flestum sviðum lista og fræða, og er óháður stærð byggðarlaga. Jarðvegur fyrir menningartengda ferðaþjónustu sem atvinnugrein er því frjór.(bls. 7) 

Það var hálfgert menningarferðalag í víðri merkingu orðsins að fara í fyrsta sinn einn með foreldrum sínum að Mývatni, þá á tíunda ári (1954). Við skoðuðum Námaskarð, vatnið, eyjarnar og fundum fyrir mýinu, en það sem sat eftir  í barnsminninu voru fyrstu kynni mín af Dimmuborgum. Foreldrar mínir leyfðu mér að ráfa um í langan tíma og ég gleymdi mér alveg í þessum undraheimi, því ég var einn í honum. Seinna heimsótti ég staðinn með syni mínum sem þá var sex ára og skyldfólki. Fleira fólk var þá á staðnum, nokkrir bílar og sandur farinn að hlaðast upp í „borginni“ en samt voru einhverjar leifar af töfrunum til staðar. Enn síðar mættum við hjónin ásamt sonarsyni til að sýna honum landið sitt. Tvær stórar rútur fullar af erlendum ferðamönnum voru mættar á staðinn, eflaust af skemmtiferðaskipi í Akureyrarhöfn. Borgin var að hverfa í svartan sandinn og sonarsyninum fannst fátt um. Hvort það var vegna fólksins eða hugarfarsbreytingu nýrrar kynslóðar læt ég ósagt en ég fann fyrir töluverðum söknuði.

Hugmynd mín að „mjúkri ferðamennsku“ kviknaði er ég var við tökur á kvikmyndinni Gísla saga Súrssonar í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar (1982). Eitt atriðið krafðist þess að siglt yrði inn fjörð sem væri gróðri vaxinn milli fjalls og fjöru og höfðu útsendarar Ágústs einmitt fundið slíkan fjörð. Ég vil ekki gefa upp staðsetningu hans því þá félli ég í sömu gildruna og Valene L. Smith, en tilfinningin að sigla inn fjörðinn, því ekki var hægt að fara þangað akandi, er ólýsanleg og fannst okkur sem við værum að sjá landið okkar í fyrsta sinn.

Hugmyndin var kannski ómeðvitað fengin að láni úr kvikmyndinni West World (1973) þar sem gestum í skemmtigarði bauðst að klæða sig upp, til dæmis sem kúrekar og lifa lífinu í Dodge City. Mín hugmynd var að taka fjörð eins og þennan og byggja skála og umhverfi að fornum sið og gefa gestum tækifæri til að lifa fortíðina — og þá meina ég fortíðina. Tilvonandi gestum yrði ekið í gluggalausum langferðabíl á ákveðinn stað þar sem þeir væru „strípaðir“ af öllum nútíma. Síðan sigldi þeir inn fjörðinn á langskipi, fengi vinnu sér til viðurværis og gistingu í skálanum eða öðrum híbýlum um lengri eða skemmri tíma. Allt væri frá tímanum um árið 1000, matur, klæðnaður, og engin vatnssalerni.

Í bók sinni Ferð um fornar sögur — Noregsferð í fótspor Snorra Sturlusonar segir Þorgrímur Gestsson frá Víkingabólinu að Hrauki:

... Sjálfur víkingaheimurinn er á neðri hæðinni þar sem komið hefur verið upp haganlega gerðum eftirlíkingum af híbýlum manna á víkingatíð og upp um veggi heimskort er sýna ferðir víkinga – meðal annars til Íslands og áfram til Vínlands hins góða. Fortíðarhús þetta stendur niður við vatnið og þar sem ég stóð á veröndinni fyrir utan veitingabúðina veitti ég athygli ungri konu í vaðmálskjól að ganga frá litlum, fornfálegum innanskerjabáti við bryggju. Ég gaf mig á tal við hana og hún útskýrði fyrir mér að hápunktur starfseminnar væru ferðir norður um vatnið til næturstaðar þar sem börnum jafnt sem fullorðnum væri boðið til ævintýralegrar veru um lengri eða skemmri tíma við svipaðar aðstæður og forfeðurnir bjuggu á sinni tíð. (bls. 50) 

Niðurstaða mín er sú sama og Elke Dettmer eða sú þversögn að ferðamennska eyðileggur ferðamennsku (byltingin étur börnin sín). Ef við ætlum að gera út á menningartengda (mjúka) ferðamennsku verðum við að gæta okkar — og jafnvel gæta okkar enn betur ef við gerum það ekki. Við ættum að skoða „Bænaskrána“ og athuga hvort við getum notfært okkur boðskap hennar því margt í henni er í rauninni heilbrigð skynsemi. Ferðamennska er ekki bara „bísness“ og velgengni hennar mælist ekki eingöngu í krónum og aurum hún er líka verkefni fyrri þjóðfræðinga.

  Heimildaskrá 

Brennan, Denise (2006). Conformity and Conflict, Readings in Cultural Anthropology. Í James Spradley og David W. McCurdy (Ritstj.), Men's Pleasure, Women's Labor: Tourism for Sex (bls. 355-369). Boston: Pearson.

 

Dettmer, E. (1994). Putting Folklore to Use. Í D. Hufford (Ritstj.), Moving Toward Responsible Tourism: A Role for Folklore (bls. 187-200). Lexington: University of  Kentucky Press.

 

Samgönguráðuneytið (2001). Menningartengd ferðaþjónusta. Reykjavík

 

Smith, Valene L., Harrison, David og Price, Martin F., o.fl. (1996). People and Tourism in Fragile Enviroments. Í Martin F. Price (Ritstj.), The Inuit as Hosts: Heritage and Wilderness Tourism in Nunavut (bls. 41). Chichester: John Wiley & Sons.

 

Þorgrímur Gestsson (2003). Ferð um fornar sögur. Noregsferð í fótspor Snorra Sturlusonar. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag — Sögufélag.

  

Örsaga 003: Afmælisljóðið

Undir morgun skreið ung stúlka, á að giska átta til tíu ára gömul, upp í til Jóns leirskálds og hreiðraði um sig í fangi hans.

„Eigum við að spúna?“ spurði hún „liggja saman eins og teskeiðar í skúffu.“

Þótt hún væri ekki eldri en þetta vissi Jón alveg hver hún var. Skáldgyðjan sjálf.

„Ég veit hvað spúna er,“ svaraði Jón nývaknaður og fannst þessi ameríkansering hálf kjánaleg.

„Þú ert yngri en ég hélt,“ sagði Jón.

„Ég er á þeim aldri sem skáldið vil hafa mig,“ svaraði hún.

„En ég er ekki skáld og ég minnist þess ekki að ég hafi hugsað mér þig á einhverju sérstökum aldri,“ sagði Jón.

„Kannski þig langi til að eiga dóttur á þessum aldri,“ sagði hún.

„Það gæti verið,“ hugsaði Jón eiginlega frekar en að segja það upphátt.

„Eigum við þá ekki að byrja?“ spurði hún.

„Byrja?“ spurði Jón á móti.

„Ætlaðirðu ekki að yrkja ljóð til konunnar út af sextugsafmælinu?“

„Jú, ég hef verið að velta því fyrir mér, en einhvern veginn ekki komið því í verk.“

„Ég get ekki ort fyrir þig,“ svaraði hún, „ég er bara innblástur, þú verður að yrkja.“

„Allt í lagi,“ svaraði Jón. „Um okkar fyrstu kynni datt mér í hug:

 

Á Hressó þér algebru kenndi

þú sagðir: „Ég á það bendi,

að mér þykir það leitt

en ég skil ekki neitt

enda fer ég betur í hendi.“

 

„Þetta er nú frekar slappt,“ sagði hún. „Hvaða bragarháttur er þetta eiginlega?“

„Þetta er limra,“ svaraði Jón, „veistu það ekki?“

„Ég veit ekki neitt,“ svaraði hún, „Ég er bara innblásturinn, vindurinn sem knýr orgelið, þitt er að spila á nóturnar.“

 

   Nú var þögn um hríð en þá sagði hún: „Er þetta allt og sumt?“

„Nei, hún spáir í bolla, þótt það sé ekki á hvers manns vörum og því datt mér í hug:

 

Þótt bersögul sé borgin

þá berst það ekki út á torgin

að hún spáir í bolla

og sér margan skolla

skjótast um kaffikorginn.“

 

„Þessi er ekki svo vitlaus, viltu meiri innblástur?“ spurði hún eins og hún væri að bjóða brjóstsykur.

„Já, takk,“ svaraði Jón og kættist aðeins. „Hún vinnur mjög mikið en hefur samt tíma til að sinna því sem hún hefur áhuga á eins og að syngja í kórum, yrkja sálma og...“

„Og hvað gerir þú?“ spurði hún.

„Ég sé um matinn,“ svaraði Jón.

„Geturðu komið þessu saman?“ spurði hún.

„Hvernig væri:

 

Hún Sigríður kann ekki að slugsa

og því hef ég verið að hugsa

að sálma hún syngur

og sér um fingur

hún vefur sextugum uxa.“

 

„Þú ert alveg vonlaust keys,“ svaraði hún og stökk fram úr rúminu.

 

Jón leirskáld horfði á eftir henni út um svefnherbergisdyrnar og hugsaði með sér að eflaust færi aldur Skáldagyðjunnar eftir þroska skáldsins, þótt hún kynni að koma sér hjá því að segja það berum orðum.


Þjóðlífsmynd 003: Jól æskunnar

  Móðir mín var yngst sinna systkina. Hún átti tvo bræður og þrjár systur. Ein þeirra dó fyrir aldur fram og saknaði móðir mín hennar sáran og miðaði ýmislegt við dauða hennar. Elsta systir hennar giftist dönskum manni og bjó alla sína tíð í Danmörku. Móðir mín dvaldi stundum hjá systur sinni í Danmörku, talaði málið reiprennandi, samdi sig töluvert að dönskum siðum og notaði danskar slettur. Hún talaði alltaf um „balkon" en ekki svalir og „fortóf" en ekki gangstétt.

Ég veit ekki hvort þetta hafði áhrif á jólin okkar, en það var mikið um skraut í stofunum heima. „Músastigar" og alls kyns pappírsskraut var hengt í loftin, greinar settar á bak við myndir á veggjum, kerti og „löberar" hvar sem hægt var að koma þeim fyrir.

Samt stóð móðir mín á því fastar en fótunum að hafa rjúpur á jólunum og bara á jólunum. Rétt fyrir hver jól birtist maður með stóran, oft blóðugan pappakassa sem hann snaraði niður í vaskahús. Þar settist svo móðir mín niður á Þorláksmessu og hamfletti 15 til 20 rjúpur sem hún lagði svo í mjólk yfir nóttina. Systrum mínum óaði við fiðrinu og blóðinu og komu ekki niður fyrr en allt hafði verið hreinsað. Aftur á móti var móðir mín fljót að sjá mig út og lét mig aðstoða sig. Þetta endaði með því að það varð mitt verk að hamfletta rjúpurnar fyrir jólin og mátti ég sitja einn í þvottahúsinu við þá iðju. Þetta varð til þess að ég bæði hlakkaði til og  kveið fyrir jólunum.


Örsaga 002: Litla hafmeyjan

    Jón feiti var í góðum holdum án þess að hann réri í spikinu. Hann taldi það sér til trafala í kvennamálum og honum fannst hann hálfgerð kvennafæla. Það skipti ekki máli þótt hann væri vel stæður og ætti stórt hús, kvenfólk leit ekki við honum. Hann var kominn á miðjan aldur og þráði það heitasta að kynnast konu og eignast börn, helst fullt hús af börnum. Hann orðaði þetta ekki við nokkurn mann, því hann vissi að í karlafélagsskap yrði hann álitinn eitthvað skrýtinn og konur vildu ekki heyra minnst á  „fullt hús af börnum", eitt eða tvö var nóg. Þegar hann grandskoðaði sálartetrið varð hann að viðurkenna að það sem hann þráði hvað mest var að komast yfir kvenmann. Hann var hættur að setja skilyrði fyrir fegurð, háralit eða vexti, hann vildi bara komast í kvenmannssköp.

   Síðla eitt sumarkvöld þegar ekkert var í sjónvarpinu tók hann á sig rögg og fór í göngutúr. Þetta hafði staðið til mánuðum saman og var þáttur í megrun, en eins og margt annað sem einnig átti að vera þáttur í megrun hafði það setið á hakanum. En nú var stundin runninn upp, hann fann það á sér, upp úr sófanum og út að ganga. En hvert? Hann bjó úti á Seltjarnarnesi og þar var ekki um margt að velja nema þá að rölta út í Gróttu.

   Sól var enn á lofti og þetta var fallegt kvöld. Jón feiti rölti eftir stígnum út að golfklúbbnum og sá ekki nokkurn mann á ferli. Hann var orðinn dálítið sveittur og fætur hans rakir í skónum svo hann fór út af gangstígnum og niður í fjöru, fór  úr skóm og sokkum og óð aðeins í sjónum. Sjórinn kældi hann niður og hann naut þess að vaða eins langt og uppbrotinn á buxunum leyfðu. Þegar kaldur sjórinn lék um læri hans reis honum hold, en það hafði ekki hent hann áður. Yfirleitt leiddi kuldi til þess að limurinn dróst saman og varð eins og rúsína. Þegar hann þoldi ekki lengur við flýtti hann sér að vaða í land, settist á stein og þurrkaði á sér fæturna með sokkunum, beið síðan eftir að risið lækkaði, stakk berfættum fótunum í skóna og rölti heim á leið.

   Kvöldið eftir fann hann þörf hjá sér að fara út að ganga, en nú hafði hann lítið handklæði meðferðis. Allt fór á svipaða leið og hann varð bara nokkuð ánægður með sig.

   Þegar þetta hafði gengið svona í nokkurn tíma og hann var farinn að venjast köldum sjónum og óð því lengra og lengra, kom það fyrir að hann fór úr buxum og nærbuxum þegar engin var sjáanlegur og óð alveg upp í mitti og fann hold sitt þrútna af ánægju.

   Þannig stóð hann út í sjónum er hann fann að eitthvað snerti lim hans ofur varlega. Jóni feita brá samt nokkuð sem ekki var furða og hrökk aftur á bak og leit niður í sjóinn. Eitthvað gult sveif um þarna niðri. Hann ætlaði að grípa eftir því, en það færðist undan. -Lifandi þang? hugsaði hann, en um leið færðist gula þangið upp að yfirborðinu og síðan upp úr sjónum. Það reyndist vera gullfallegt sítt hár og ekki var andlitið síðra sem það umlukti.

   Jón feiti gapti af undrun og ætlaði að segja eitthvað, en gyðjan setti fingur á munn sér,  synti síðan til hans og reis til hálfs upp úr sjónum. Hún var nakin svo langt sem hann sá en ljósa, síða hárið huldi lítil brjóst hennar. Hún nálgaðist hann og lagði handleggina um háls hans og kyssti hann innilega. Hvað gat hann sagt? Hvað gat hann gert? Kossinn var frekar kaldur og með saltbragði en það var skiljanlegt eða svo fannst Jóni.

   Hann tók utan um hana og lyfti henni upp og síðan aðeins frá sér. Hann hafði aldrei séð aðra eins fegurð. Hann vissi ekki alveg hvað hann átti að gera og gerði því það sem hann hafði hneykslast á í hundruðum kvikmynda. Hann lagði hönd að vanga hennar og færði fingurna smámsaman undir kjálkann. Hún misskildi hann, því hún dæsti svo hann fann rakt loft streyma snöggt um fingurna og hann kippti hendinni að sér. Hún brosti og snéri höfðinu þannig að hann sá tálknin. Þegar hún sá svipinn á honum brosti hún og önnur hönd hennar seig niður í djúpið og tók utan um liminn. Jón feiti fann sælu hríslast um sig, hann lygndi aftur augunum og sá því ekki nema á sekúndubroti sporðinn sem skaust augnablik upp úr sjónum er höfuð gyðjunnar hvarf í djúpið.

   Jón feiti „flaut" í himnasælu í köldum sjónum en þegar skvettist framan í hann var eins og hann ryki upp af góðum draumi. Hann leit í kringum sig og sem betur fer var ekki nokkurn mann að sjá hvorki á láði né í legi. Hann óð í land, þurrkaði sér í skyndi og flýtti sér heim.

   Næstu kvöld rölti hann niður í fjöru og leit út yfir hafið. Hann var ekki viss hvort hann hafði verið að dreyma eða hvað hafði í rauninni komið fyrir hann, en hann gat ekki afmáð mynd hennar úr huganum. Hann hélt samt áfram þessum kvöldgöngum sínum, staldraði við og horfði út á hafið og rölti svo heim á leið.

   Ári síðar þegar hann var nýkominn heim og búinn að taka af sér var bankað á dyrnar. Jón feiti átti ekki von á gestum, bjóst við einhverjum sölumanni eða álíka truflunarvaldi og opnaði því dyrnar frekar hastarlega. Hann bráðnaði er hann sá hana standa þarna umlukta gyltu hárinu. Standa? Já, hún var með fætur!

   „Ertu komin?" spurði hann, en það er einmitt það augljósasta sem við spyrjum um þegar við höfum það fyrir augunum. „Ég hef þráð þig svo heitt," bætti hann við og breiddi út faðminn og hún hvarf inn í hann. „Elsku pabbi," sagði hún og sleit sig lausa úr fangi hans, hljóp að dyrunum og kallaði út: „Kokmiðið, krakkar. Þetta er húsið hans pabba."

   Jón feiti horfði glaður og undrandi á er húsið hans fylltist af börnum.


Þjóðlífsmynd 002: Alvöru sveit og reiðmennska

 

     Á sjötta ári (1950) fór ég fyrst í alvöru sveit með systur minni sem er fjórum árum eldri. Það var að Reykjum í Miðfirði (Laugarbakka) til Jóns og Höllu, en Halla hafði verið vinnukona móðurömmu minnar. Áður höfðu eldri systur mínar verið þar í sveit.

Jón setti mig berbakt upp á hest  til að ná í kýrnar. Ég datt af baki til vinstri og hægri. Stóð upp, leiddi hestinn að næstu þúfu og fór aftur á bak. Mér tókst að sækja kýrnar og reka þær heim og nafni hrósaði mér fyrir þrákelknina. Seinna meir er ég nokkuð viss um að ég hafi ekki verið einn á ferð. Hann fyrirgaf mér líka að spyrja hvað hann ætti stóra „lóð". Mjólkin var sett í brúsa og ekið á hestvagni út á brúsapall og kepptumst við um að fá að fara með. Það var ekki dráttarvél á Reykjum, heldur var slegið með hestum og allt rakað með hrífum.

Elsti bærinn á Reykjum var enn uppistandandi en það var torfbær og stóð fyrir ofan Laugarbakka. Ég fór í heimsókn til gamla fólksins sem bjó þar og fannst dálítið skrýtið að það var moldargólf í göngunum en viðargólf í „stofunni".

Við fengum iðulega „lánaða" hesta og fórum í stutta og langa reiðtúra og ég hef eflaust fengið nóg af reiðmennskunni þetta sumar því ég fór ekki á hestbak fyrr en fjörutíu árum síðar og hafði þá engu gleymt.

      Á Laugarbakka háttaði þannig til að hænsnakofi var undir árbakkanum. Hægt var að ganga út á þakið beint af bakkanum en okkur krökkunum var bannað að gera það því þá hættu hænurnar að verpa.

Fjósið var fyrir ofan Laugarbakka og kýrnar reknar þaðan inn í dal og áttu yfirleitt ekki erindi niður „í byggð". En svo kom það auðvitað fyrri að ein kýrin kom í heimsókn, gekk út á þakið á hænsnakofanum og lét það undan þunga hennar. Sem betur fer lenti kýrhausinn á veggnum, sem hélt, svo hún hálsbrotnaði og drapst samstundis. Nokkrar hænur drápust líka.

Við krakkarnir vorum fyrst á vetfang. Ætli við höfum ekki verið í sundlauginni því þar dvöldum við löngum. Náð var í jeppa því engin var traktorinn og kýrin dregin upp á bakkann. Þar var hún skorin svo innyflin láku út um sárið. Ekki var amast við því að við krakkarnir stóðum nálægt og fylgdumst með öllu. Það var sjálfsagt mál. Ég minnist þess ekki að þetta hafi haft nokkur áhrif á mig, svo sem svefntruflanir eða álíka. Aftur á móti var þetta krassandi saga handa félögunum í bænum.


Þjóðlífsmyndir og örsögur

     Ef einhver les þetta þá er ég búinn að breyta tilgangi þessarar bloggsíðu minnar. Það reka allir upp ramakvein þegar eitthvað gerist, því allt orkar tvímælist þá gjört er og fara að blogga um það út og austur. Ég hef aldrei verið nógu mikil hópsál til að ganga í félag sem vill hafa menn eins og mig sem félaga og hér vitna ég í Groucho Max-bróðir, því hef ég ákveðið að á þessari bloggsíðu verði aðeins Þjóðlífsmyndir af sjálfum mér og Örsögur sem hafa safnast upp hjá mér, bæði í rituðu formi sem á sveimi í heilabúi mínu.  

   Ég get ekki lofað stöðugu flæði en ætla að reyna að halda mig að þessu eins og ég hef tíma og þrek til. Hér á eftir fara fyrstu færslur á þessum tveimur sviðum. Ég mun einnig sinna öðrum liðum/flokkum sem eru á dagskrá, öðrum hef ég eytt.

   Það væri gaman að fá einhver viðbrögð við þessu en mér er meira í mun að koma þessu frá mér og að það sé aðgengilegt einhvers staðar.


Örsaga 001: Lífselixírinn

 

Jón gamli kreppti og sperrti tærnar til skiptis í smástund áður en hann reis upp í rúminu og settist fram á rúmstokkinn. Hann leit aftur á klukkuna svona til að fullvissa sig um að uppsestur sýndi klukkan sama tíma og þegar hann lá út af á koddanum. Hann teygði tána í inniskóna og dró þá að sér, stakk fótunum í þá og reis síðan rólega upp og tók fyrstu skref morgunsins en þau voru alltaf erfiðust.

Vegalengdin fram á bað var nógu löng til að liðka hann það mikið að hann gat staðið uppréttur (en þurfti ekki að sitja eins og kelling) og kastað af sér vatni, þessari mjóu bunu sem hann varð alltaf að bíða eftir, alveg sama hvað honum var mikið mál. Að því loknu þó hann hendur sínar, hóstaði slýi næturinnar í vaskinn og burstaði tennurnar. Nú var hann orðinn það liðugur að hann gat gengið fram í eldhús og sett vatn í ketilinn.

Jón gamli hellti alltaf fyrst upp á kaffi handa konu sinni og síðan upp á te handa sjálfum sér. Hann hafði þann vana á að hita kaffibrúsann með því að láta heitt vatn renna í hann úr krananum og gat ekki dásamað nógu mikið hvað það var gott að hafa varmaskipti á heitavatnslögninni. Síðan setti hann trektina í brúsann og kaffipokann í trektina. Næst hitaði hann tekönnuna sem hann drakk úr á sama hátt og stillti henni upp við brúsann.

Jón gamli leit ekki við tegrisjum heldur notaði hann síu sem hann fyllti af lausu tei og setti í tekönnuna sína. Þá tók hann kaffistampinn, setti þrjár kúffullar skeiðar í trektina því hann vissi að konan vaknaði ekki á öðrum bolla nema kaffið væri vel sterkt.

En þennan morgun fór eitthvað úrskeiðis. Þegar Jón gamli hellti síðustu kaffiskeiðinni í trektina, féllu þrjú kaffikorn niður í tekönnuna hans. Jón varð einskins var og hellti heita vatninu í tekönnuna og hélt síðan áfram að hella upp á kaffið.

Þegar því var lokið setti hann ketill frá sér, hrærði aðeins með síunni í teinu, tók hana síðan upp og tæmdi úr henni í ruslið. Eftir það skolaði hann síuna og hengdi hana upp á sinn stað.

Jón gamli fékk sér nú fyrsta tesopa dagsins. Hann var vanur að finna til sérstaks unaðar þegar heitt teið rann niður kverkar hans en þennan morgun var eins og einhver unaður öllu ærði færi um líkama hans. Hann fann hvernig hann styrktist allur. Þrautir hurfu á brott, heilinn var skýr eins og komið væri fram á miðjan dag og hann búinn að innbyrða allt úr dagblöðunum.

Ekki hafði Jón gamli grænan grun um hvað var að gerast í líkama hans. Hann hafði af algjörri tilviljun hitt á rétta blöndu Lífselixírsins. Það var hann sem var að umbreyta líkama hans, yngja hann um áratugi og gefa honum horfinn kraft og orku. Hann þurfti bara að klára úr könnunni og láta lífsvatnið hafa sinn gang, þá hefði hann verið lifandi sönnun þess að hinn eini og sanni Lífselixír var ekki hindurvitni og hugarburður heldur hinn eini sanni brunnur lífsins.

Jón gamli smjattaði aðeins og var ekki alveg nógu hress með bragðið svo hann teygði sig í sykrið og bætti hinum vanalegu tveimur teskeiðum út í teið og hrærði.

 


Þjóðlífsmynd 001: Skólaganga og sumarbústaðarlíf

 

Ég var borgarbarn, fæddur 1944 og ólst upp á Hringbraut 110, vestast í Vesturbænum. Ég var eini drengurinn í sex systkina hópi, reyndar miðbarnið, átti þrjár eldri systur og tvær yngri. Foreldrar mínir voru Egill Sigurgeirsson, hrl. (1910-1996) og Ásta Dahlmann (1914-1980). Þau Egill og Ásta létu allar dæturnar ganga í skóla til nunnanna í Landakoti en sonurinn var sendur í Melaskólann. Ég fékk aldrei skýringu á þessu hátterni þeirra eða var það ég sem neitaði að fara í „nunnuskólann"?

Foreldrar mínir eignuðust sumarbústað fyrir ofan Geitháls á fimmta áratug síðustu aldar og er skóla lauk á vorin flutti öll fjölskyldan búferlum upp í sumarbústað og dvaldi þar fram á haust. Sagan segir að fyrsta daginn hafi ég gengið niður í „laut", ekki séð bústaðinn og farið að grenja, en það varð einmitt til þess að ég fannst.  Faðir okkar ók í bæinn á hverjum degi til vinnu sinnar og kom „upp eftir" á kvöldin með innkaupin.  Síðdegis var það keppni á milli okkar systkinanna að verða fyrst til að sjá bílinn hans koma yfir hæðina. (Hvað sögðum við þá? „Þarna kemur bíllinn hans pabba yfir hæðina!" Vegurinn var malarvegaur frá Rauðavatni og lá  í hlykkjum þaðan og að Hólmsá en var beinn eftir það upp í Lækjarbotna - og er enn).  Farið var í bæinn einu sinni í viku til baða og þvotta. Frændi minn, sem var kvæntur elstu systur föður míns var í næsta bústað og þar hélt hann hesta. Við krakkarnir fengum að far á bak og ríða um „lóðina" en fórum aldrei í alvöru reiðtúra.

Ég átti kunningja í bústöðunum í kring sem voru nokkurs konar sumarvinir mínir. Þegar ég kom í bæinn á haustin hitti ég aftur vetrarvini mína og við vorum alltaf jafn hissa á því hvað við höfðum stækkað um sumarið. Vert er að geta þess að ég lék mér sjaldan við jafnaldra mína, flestir vinir mínir voru annað hvort mun yngri en ég og nokkrir mun eldri og af báðum kynjum. Ég hef aldrei fengið botn í hvernig á því stóð

Skólaganga mín hófst við sjö ára aldur. Það tók mig næstum því tvo vetur að verða læs, en varð svo fluglæs níu ára gamall á jólanótt er ég fékk fyrstu bókina í jólagjöf en hún hét Góður götustrákur. Síðar á ævinni leitaði ég skýringa á þessu fyrirbæri. Móðursystir mín, Dagmar Dahlmann (1906-2002), var nokkuð höll undir þá skýringu að móðurafi minn, Jón J. Dahlmann, ljósmyndari (1873-1948), hafi kennt mér að kveða að þegar ég var á fjórða ári en því svo ekki sinnt eftir fráfall hans. Afi minn var í Hólaskóla í Haukadal og kannski voru kennsluaðferðir hans frábrugðnar því sem síðar tíðkaðist.

Móðir mín lagði á það áherslu að ég gengi í skólann út Hringbrautina og síðan Furumel að Melaskóla. Þessi leið var um það bil kílómetri en mun styttra var að skjótast í gegnum braggahverfið Kamp Knox. Sessunautur minn af dönskum ættum bjó við Kaplaskjólsveg, rétt fyrir utan kampinn [það var loftvarnarbyrgi við húsið þar sem við lékum okkur stundum] og margir af skólabræðrum okkar bjuggu í kampinum þannig að við urðum samferða í skólann.

Mér leið alltaf illa í þessum skóla, enda var ég í „tossabekk" og átti ekkert samneyti við skólafélagana utan skólans, heldur lék mér við „vetrarvini" mína. Það gekk svo langt að ég neitaði að fara í skólann en var þá keyrður upp að dyrum en gat einhvern veginn smogið út á öðrum stað og falið mig. Ég fannst þó fyrir rest og var fylgt inn í tíma.

Ég man ekki hverjir kennarar mínir voru né hvað þeir hétu og var þeirri stundu fegnastur er ég losnaði úr þessu helvíti. Stundum sé ég þó eldri manni bregða fyrir hér í nágrenninu sem minnir mig á gamla barnaskólakennarann minn, en hann var svo gamall þegar hann kenndi mér að hann hlýtur að vera löngu dauður.

Þegar kom að því að fara í gagnfræðiskóla var skipting í skóla um Hringbrautina og enginn af skólafélögum mínum úr barnaskóla fór í Gaggó Vest - nema ég.  Þrettán ára og fyrsta árið mitt í gaggó ver í Gamla Stýrimannaskólanum en síðan fluttist hann niður í JL-húsið. Ég var sá eini í mínum bekk sem fór í Landspróf, til að komast í menntaskóla, en náði ekki framhaldseinkunn og varð að fara aftur í Landspróf og var sendur út á land - á Staðarstað þar sem Galdra-Loftur dvaldi sína hinstu daga  - en meira um það síðar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband