Til varnar íslenskri tungu

Kreppukarlinn

Í tilefni þess að ný ríkisstjórn ætlar að efla íslenska menningu og einnig að RÚV fer af stað með þátt um íslenskt mál, Orðbragð, í haust, vil ég leggja mitt að mörkum með þessari stuttu grein.

Ekki segja „hérna“

Hugsaðu áður en þú talar. Ef þú hugsar ekki hraðar en þú talar, skaltu varast að segja „hérna“ í öðru hvoru orði eins og fjórir af hverjum fimm íslendingum, því fátt sker jafnilla í eyru. Ef þú hefur ekki tekið eftir þessu, skaltu hlusta á viðtalsþætti í útvarpi og sjónvarpi, t.d. Kastljósið eða Kiljuna og Silfur Egils, því Egill er fundvís á menn sem segja hérna, sko og sem sagt. Ég setti tvö verstu dæmin á Youtube.com undir: „Silfrið hérna Óli Björn“ og „Illskan öll

Forðastu að hefja mál þitt eða svar með „Ammmmm...“ sem smeygði sér inn í íslenskuna með amerískum sjónvarpsþáttum. Ekki segja: „Aaaaa...“ og allra síst með kokhljóði eða eitthvað því mun heimskulegra, sé það hægt, ef þú þarft að hugsa þig um. Aldrei segja „sko“ í lok setningar.

 

Hvorki segja né skrifa „sem sagt“

... nema þú hafir útskýrt eitthvað ítarlega eða í löngu máli, þá dregur þú mál þitt saman og segir: „Sem sagt, þannig er farið að því...“ Fjöldi Íslendinga ofnotar „sem sagt“ í daglegu tali, t.d. fréttamenn, viðmælendur þeirra og stjórnendur sjónvarpsþátta  - að ógleymdum þýðendum norrænna sakamálasagna sem nota það allt að þrisvar til fimm sinnum á sömu blaðsíðunni.

Ég benti síðastnefnda hópnum á þetta í grein í Fréttablaðinu 10. apríl 2012, „Er sem sagt, sko?“, (bls. 19) og útskýrði aðferð til að forðast það. Aðferðin felst í því að láta Word forritið finna „sem sagt“ og lýsa það upp með gulu – fylla skjáinn af blaðsíðum og þá er eins og einhver hafi pissað yfir handritið. Þetta er mjög sálræn upplifun og fær þann sem reynt hefur, að forðast „sem sagt“ eða annað sem hann/hún vill forðast að ofnota. Sjá Youtube.com: „Kiljan-sem-sagt

Aðeins einn „sem sagt“ þýðandi hafði samband við mig með tölvupósti. Hann taldi sig bundinn af Bernarsáttmálanum frá1887, (tók gildi á Íslandi1947) sem HKL hefði bent sér á og að hann yrði að vera trúr upphaflega handritinu. Ekki hefur HKL fylgt eigin ráðum er hann þýddi „Vopnin kvödd“ 1941 (Farwell to Arms) eftir Hemingway né við endurútgáfuna 1977. Fyrsta þýðing hans á titlinum var „Kveðja til vopnanna“, sem er afleit þýðing. HKL átti síðan í miklu stríði við þýðinguna; fékk ákúrur frá Kennarafélagi Suður-Þingeyinga fyrir aðför að íslensku ritmáli og alnafni hans, skólastjóri í Vestmannaeyjum, taldi um fjögur þúsund ritvillur áður en hann skrifaði ádeilugrein í Tímann.

En Sigfús Daðason, skáld, ritaði í varnargrein: „... var þýðing Halldórs mér einnig fyrsta lexía í þýðingarfræði, og mér lærðist þá þegar að frumtexti og þýðing er sitt hvað.“

 

Ekki tala í nafnhætti

Þjóðsagan segir að nýbúar hafi átt erfitt með beygingu íslenskra sagna, svo þeir notuðu nafnhátt í staðinn. Þeir sögðu: „Ég er ekki að skilja þetta“ í stað: „Ég skil þetta ekki“. Málhaltir Íslendingar tóku undir þetta og hófu að segja: „Herjólfur er ekki að sigla...“ í stað: „Herjólfur siglir ekki.“  Í lífstílsþætti var sagt: „Hvað ertu að nota á húðina... í stað: „Hvað notarðu á húðina?“ Í Útsvari var spurt: „Eruð þið ekki að finna fyrir því...“ i stað: „Finnið þið ekki fyrir því?“ Stórlax í viðskiptaheiminum sagði: „Hefur ekki verið að skila sama árangri...“ í stað: „Hefur ekki skilað sama árangri...“ Í tilefni ofangreinds þáttar um íslenskt mál á RÚV hófst grein í Fréttablaðinu á setningunni: „Við erum að fara að vaða í tökur á þessu.“... og dæmi nú hver fyrir sig.

Það versta við svona greinar er að þeir sem þyrftu að lesa þær gera það ekki, því bið ég þig, lesandi góður, að benda þeim á greinina sem þér finnst að ættu að lesa hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband