Árið 2013 Verðlaunaritgerð sem birtist á bls.7 í 29.tbl. Lesbókar Morgunblaðsins 13. Október 1963

Mikið hef ég verið svartsýnn ungur maður, því ritgerðin byrjar á miklum heilaspuna um það hvernig Jörðin geti farist á hinn aðskiljanlegasta hátt. Þetta nær yfir rúmlega eina A4 síðu af þeim sjö sem greinin tekur í dag, eftir að ég náði í hana á vefinn og setti upp í Word 2013.

Ritgerð: Ég lýsi því svo yfir að þar með sé svartsýninni lokið, við séum komin til ársins 2013 í byrjun júlí og sólin skín. Við erum stödd á háu fjalli, lítum yfir Suðurlandsundirlendið og þar eru endalausar raðir uppblásinna stórra gróðurhúsa sem rækta grænmeti. Síðan er ræktun lýst í löngu máli; minnst á gerlagróður og DNA ræktun – erfðabreyttan gróður?

Hvað gerðist? Verst að grænmetið er allt soðið niður en ekki dreift fersku.  Í dag er uppblásið íþróttahús í Hveragerði og rætt um að byggja stórt og mikið gróðurhús í Grindavík til að rækta tómata til útflutnings. Þó nokkur umræða hefur verið um erfðabreytt korn og önnur matvæli. ‒ Ef til vill ekki alveg það sem ég átti við, en uppblásið hús og stórt gróð...

Ritgerð: Hvað með blessaðar kýrnar og önnur húsdýr? Hér nefni ég í fyrsta skipti  „rafmagnsheila“ sem sér um velferð dýranna sem ganga laus í tilbúnum dölum. Mjaltir eru vélrænar og það útskýrt með orðinu automatískar, stjórnað af rafmagnsheila sem fylgist með velferð dýranna. Ég segi reyndar að menn umgangist ekki dýrin nema þá helst dýralæknar og ‒ takið eftir ‒ dýrasálfræðingar! Hestar eru einkum notaðir til skemmtana og útreiða.

Hvað gerðist? Rafmagnsheili verður framvegis nefndur „tölva“ í þessari grein. Í nokkrum kúabúum á landinu ganga kýr lausar og láta mjólka sig sjálfvirkt (vélrænt) þegar þeim sýnist og tölva skráir allt. Dýrasálfræði er viðurkennt fag og eru hestar notaðir í annað en útreiðar?

Ritgerð: Ég tel að útgerðarfélög verði dottinn úr „tízkunni“ en sjálfvirkir, mannlausir, egglaga togarar sendir á miðinn og öllu sé stjórnað af tölvum. Björgunarbátar eru líka egglaga og því lokaðir. Lesa má úr textanum að útgerðin sé þjóðnýtt og „Veiðimiðstöðin“ sjái um útgerðina og bregðist við, bili báðar tölvurnar í togaranum. Greinilega kemur fram að veitt er með rafmagni og aflinn verkaður um borð. Skemmtiferðaskip á loftpúða með öllu sem til þarf og kölluð „Fljótandi borgir“.

Hvað gerðist? Útgerðarfélög hafa aldrei verið sterkari, enda hirða þau ágóðann sem þjóðin ætti að njóta. Þótt togarar sökkvi ekki lengur eru þeir ekki egglaga, heldur hefur verklag breyst til batnaðar en björgunarbátar eru nú lokaðir. Karlinn situr reyndar enn í brúnni, en hann situr inn í hrúgu af flatskjáum sem sýna veiðislóð, öldugang, dýpt, veður og hver veit hvað ‒ nema karlinn sjálfur. Afli hefur verið verkaður um borð í nokkuð langan tíma, en sú verkun virðist nú vera að á leiðinni í land að nýju og það er vel.  ‒ Í nýjustu rannsóknum á veiðiaðferðum eru gerðar tilraunir með að veiða með ljósi og dælubúnaði. Skemmtiferðaskip eru fljótandi borgir með öllu, en á loftpúða? Það mátti reyna.

Ritgerð: Reykjavík; einnar hæðar íbúðarhús en háar og glæsilegar byggingar fyrir iðnað, tækni, lækna og lögfræðinga. Skrifstofumaðurinn vinnur á tölvu og getur unnið fyrir hvern sem er hvar sem er á landinu. Mikill gróður á götum Reykjavíkur. Vetrarföt með innbyggðum hita ‒ eða kulda, ef það verður of heitt. Hljóðlausir lofbílar og sekt við að valda hávaða. Allir flutningar neðanjarðar og jarðgöng um landið þvert og endilangt.

Hvað gerðist? Einnar hæðar íbúðarhús eru helst í úthverfum en miklir skrifstofuturnar eru víða í Reykjavík. Þú getur unnið á tölvu hvað sem er, hvar sem er, fyrir hvern sem er. Gróður á götum? Svo mikill að skipta þarf um tré svo ræturnar eyðileggi ekki gangstéttirnar. Vetrarföt eru kannski ekki með innbyggðum hita, en mikið eru þau betri en nælonskyrturnar og gerviefnafrakkarnir í denn. Hvalfjarðarjarðgöng voru ekki grafin fyrr en á árunum 1996 til 1998, rúmum þrjátíu árum síðar, en þeim fjölgar stöðugt.

Ritgerð: Skrifstofumaðurinn á heimleið í svifbíl sem ratar sjálfur heim. Heima er konan að tala í þráðlausan sjónvarpssíma. Hann kveikir á þrívíddarsjónvarp með Hi-Fi-elektrónískum stereóhljómi og hlustar á afganginn af framhaldsleikriti... Heimilistölvan hafði skynjað að hann sofnaði og tók upp restina af leikritinu. Sendingin var um gervitungl. Heimilisfólk notar plastkort (reyndar í barmi) í stað lykla sem tölvan les. Drengurinn les upp stíl á íslensku og tölvan þýðir hann yfir á spænsku. Stúlkan les upp prjónamynstur sem tölvan prjónar, gerir hnappagöt og festir tölur. Merkilegur ís- eða kæliskápur með snúanlegum hillum í útvegg hússins með hurðum að utan og innan.

Hvað gerðist? GPS þykir ekki merkilegt lengur, en ætli ég hafi ekki fengið þessa dellu með svifbíla úr stuttum teiknimyndum sem voru sýndar á undan aðalmyndunum í Austurbæjarbíói. Þráðlaus sjónvarpssími heitir víst „smart sími“ í dag. Þrívíddarsjónvarp er raunveruleiki en hljóðtækin heita „heimabíó“ eða eitthvað álíka. Hreyfiskynjarar eru notaðir sem þjófavörn. Ég eignaðist 22ja tommu svart hvítt túbusjónvar 1966 en gat ekki tekið upp lifandi mynd úr sjónvarpi fyrr en 1981. Ég var með þeim fyrstu sem keyptu VHS tæki og tók upp sjónvarpsþættina COSMOS með Carl Sagan. Plastkort sem lyklar eru aðallega notaðir á hótelum; önnur plastkort þekkjum við sem greiðslukort og sem skilríki. Tölvur geta þýtt af einu tungumáli yfir á annað, en Google-þýðing á íslensku er auðþekkjanleg. Að lesa prjónavél fyrir svo hún prjóni var andvana fædd hugmynd. Kæliskápurinn kemur eflaust til af því að ég vann við heimkeyrslu á vörum til fínna frúa í Garðabænum þá um sumarið með glænýtt ökuskírteini í veskinu.

Ritgerð: Garðurinn er yfirbyggður með suðrænum gróðri, háfjallasól, sundlaug, grilli og sjálfvirkum bar. Á meðan þau skipta um föt fer sjálfvik ryksuga um húsið. Þau reykja trefjasígarettur. Gestirnir hafa með sér svolítið sjónvarpstæki sem er „barnapía“. Hægt er að snúa húsinu. Á morgnana hefur tölvan sinnt því sem henni var falið kvöldið áður. Hugmyndir um kostnað, verð á rafmagni og brjálaða rafmagnsheila.

Hvað gerðist? Garðar eru ekki yfirbyggðir en fólk hefur háar girðingar í kringum garða sína og notar útihitara svo hægt sé að grilla á kvöldin. Sjálfvirkar ryksugur eru til af mörgum gerðum og fást í næstu raftækjaverslun. Trefjasígarettan varð að Rafsígarettu. Sjónvarpstæki sem barnapía heitir „app“ fyrir smartsíma. Til hvers að snúa húsinu ‒ bara til þess að horfa á sólarlagið? Nú er verð komið í fleirtölu, rafmagn er ekki svo dýrt, en menn „hakka“ sig inn í tölvur svo þær tína vitinu.

Ritgerð: Lokaorðin eru um flugmálin, sumarbústað á Tunglinu og annað tengt geimnum. Merkilegt að barneignir skuli takmarkaðar við tvö börn. Og svo þérar maður lesandann að lokum og segir: „...að ef þér trúið því, sem þér lásuð, má búast við að það rætist.“

Hvað gerðist? Gagarín fór út í geiminn 12. Apríl 1961 og ég skrifaði þessa ritgerð sumarið 1963, uppfullur af hugmyndum um geimferðir í framtíðinni. Takmarkanir á barneignum 1963? Fyrsta „glasabarnið“ fæddist 1978 og þéringar lögðust af á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar.

Þökk fyrir lesturinn,

Jón Axel Egilsson ‒ 50 árum síðar


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband