27.1.2008 | 15:07
Þjóðlífsmynd 003: Jól æskunnar
Ég veit ekki hvort þetta hafði áhrif á jólin okkar, en það var mikið um skraut í stofunum heima. Músastigar" og alls kyns pappírsskraut var hengt í loftin, greinar settar á bak við myndir á veggjum, kerti og löberar" hvar sem hægt var að koma þeim fyrir.
Samt stóð móðir mín á því fastar en fótunum að hafa rjúpur á jólunum og bara á jólunum. Rétt fyrir hver jól birtist maður með stóran, oft blóðugan pappakassa sem hann snaraði niður í vaskahús. Þar settist svo móðir mín niður á Þorláksmessu og hamfletti 15 til 20 rjúpur sem hún lagði svo í mjólk yfir nóttina. Systrum mínum óaði við fiðrinu og blóðinu og komu ekki niður fyrr en allt hafði verið hreinsað. Aftur á móti var móðir mín fljót að sjá mig út og lét mig aðstoða sig. Þetta endaði með því að það varð mitt verk að hamfletta rjúpurnar fyrir jólin og mátti ég sitja einn í þvottahúsinu við þá iðju. Þetta varð til þess að ég bæði hlakkaði til og kveið fyrir jólunum.
Flokkur: Þjóðlífsmyndir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.