Færsluflokkur: Þjóðlífsmyndir

Þjóðlífsmynd 003: Jól æskunnar

  Móðir mín var yngst sinna systkina. Hún átti tvo bræður og þrjár systur. Ein þeirra dó fyrir aldur fram og saknaði móðir mín hennar sáran og miðaði ýmislegt við dauða hennar. Elsta systir hennar giftist dönskum manni og bjó alla sína tíð í Danmörku. Móðir mín dvaldi stundum hjá systur sinni í Danmörku, talaði málið reiprennandi, samdi sig töluvert að dönskum siðum og notaði danskar slettur. Hún talaði alltaf um „balkon" en ekki svalir og „fortóf" en ekki gangstétt.

Ég veit ekki hvort þetta hafði áhrif á jólin okkar, en það var mikið um skraut í stofunum heima. „Músastigar" og alls kyns pappírsskraut var hengt í loftin, greinar settar á bak við myndir á veggjum, kerti og „löberar" hvar sem hægt var að koma þeim fyrir.

Samt stóð móðir mín á því fastar en fótunum að hafa rjúpur á jólunum og bara á jólunum. Rétt fyrir hver jól birtist maður með stóran, oft blóðugan pappakassa sem hann snaraði niður í vaskahús. Þar settist svo móðir mín niður á Þorláksmessu og hamfletti 15 til 20 rjúpur sem hún lagði svo í mjólk yfir nóttina. Systrum mínum óaði við fiðrinu og blóðinu og komu ekki niður fyrr en allt hafði verið hreinsað. Aftur á móti var móðir mín fljót að sjá mig út og lét mig aðstoða sig. Þetta endaði með því að það varð mitt verk að hamfletta rjúpurnar fyrir jólin og mátti ég sitja einn í þvottahúsinu við þá iðju. Þetta varð til þess að ég bæði hlakkaði til og  kveið fyrir jólunum.


Þjóðlífsmynd 002: Alvöru sveit og reiðmennska

 

     Á sjötta ári (1950) fór ég fyrst í alvöru sveit með systur minni sem er fjórum árum eldri. Það var að Reykjum í Miðfirði (Laugarbakka) til Jóns og Höllu, en Halla hafði verið vinnukona móðurömmu minnar. Áður höfðu eldri systur mínar verið þar í sveit.

Jón setti mig berbakt upp á hest  til að ná í kýrnar. Ég datt af baki til vinstri og hægri. Stóð upp, leiddi hestinn að næstu þúfu og fór aftur á bak. Mér tókst að sækja kýrnar og reka þær heim og nafni hrósaði mér fyrir þrákelknina. Seinna meir er ég nokkuð viss um að ég hafi ekki verið einn á ferð. Hann fyrirgaf mér líka að spyrja hvað hann ætti stóra „lóð". Mjólkin var sett í brúsa og ekið á hestvagni út á brúsapall og kepptumst við um að fá að fara með. Það var ekki dráttarvél á Reykjum, heldur var slegið með hestum og allt rakað með hrífum.

Elsti bærinn á Reykjum var enn uppistandandi en það var torfbær og stóð fyrir ofan Laugarbakka. Ég fór í heimsókn til gamla fólksins sem bjó þar og fannst dálítið skrýtið að það var moldargólf í göngunum en viðargólf í „stofunni".

Við fengum iðulega „lánaða" hesta og fórum í stutta og langa reiðtúra og ég hef eflaust fengið nóg af reiðmennskunni þetta sumar því ég fór ekki á hestbak fyrr en fjörutíu árum síðar og hafði þá engu gleymt.

      Á Laugarbakka háttaði þannig til að hænsnakofi var undir árbakkanum. Hægt var að ganga út á þakið beint af bakkanum en okkur krökkunum var bannað að gera það því þá hættu hænurnar að verpa.

Fjósið var fyrir ofan Laugarbakka og kýrnar reknar þaðan inn í dal og áttu yfirleitt ekki erindi niður „í byggð". En svo kom það auðvitað fyrri að ein kýrin kom í heimsókn, gekk út á þakið á hænsnakofanum og lét það undan þunga hennar. Sem betur fer lenti kýrhausinn á veggnum, sem hélt, svo hún hálsbrotnaði og drapst samstundis. Nokkrar hænur drápust líka.

Við krakkarnir vorum fyrst á vetfang. Ætli við höfum ekki verið í sundlauginni því þar dvöldum við löngum. Náð var í jeppa því engin var traktorinn og kýrin dregin upp á bakkann. Þar var hún skorin svo innyflin láku út um sárið. Ekki var amast við því að við krakkarnir stóðum nálægt og fylgdumst með öllu. Það var sjálfsagt mál. Ég minnist þess ekki að þetta hafi haft nokkur áhrif á mig, svo sem svefntruflanir eða álíka. Aftur á móti var þetta krassandi saga handa félögunum í bænum.


Þjóðlífsmynd 001: Skólaganga og sumarbústaðarlíf

 

Ég var borgarbarn, fæddur 1944 og ólst upp á Hringbraut 110, vestast í Vesturbænum. Ég var eini drengurinn í sex systkina hópi, reyndar miðbarnið, átti þrjár eldri systur og tvær yngri. Foreldrar mínir voru Egill Sigurgeirsson, hrl. (1910-1996) og Ásta Dahlmann (1914-1980). Þau Egill og Ásta létu allar dæturnar ganga í skóla til nunnanna í Landakoti en sonurinn var sendur í Melaskólann. Ég fékk aldrei skýringu á þessu hátterni þeirra eða var það ég sem neitaði að fara í „nunnuskólann"?

Foreldrar mínir eignuðust sumarbústað fyrir ofan Geitháls á fimmta áratug síðustu aldar og er skóla lauk á vorin flutti öll fjölskyldan búferlum upp í sumarbústað og dvaldi þar fram á haust. Sagan segir að fyrsta daginn hafi ég gengið niður í „laut", ekki séð bústaðinn og farið að grenja, en það varð einmitt til þess að ég fannst.  Faðir okkar ók í bæinn á hverjum degi til vinnu sinnar og kom „upp eftir" á kvöldin með innkaupin.  Síðdegis var það keppni á milli okkar systkinanna að verða fyrst til að sjá bílinn hans koma yfir hæðina. (Hvað sögðum við þá? „Þarna kemur bíllinn hans pabba yfir hæðina!" Vegurinn var malarvegaur frá Rauðavatni og lá  í hlykkjum þaðan og að Hólmsá en var beinn eftir það upp í Lækjarbotna - og er enn).  Farið var í bæinn einu sinni í viku til baða og þvotta. Frændi minn, sem var kvæntur elstu systur föður míns var í næsta bústað og þar hélt hann hesta. Við krakkarnir fengum að far á bak og ríða um „lóðina" en fórum aldrei í alvöru reiðtúra.

Ég átti kunningja í bústöðunum í kring sem voru nokkurs konar sumarvinir mínir. Þegar ég kom í bæinn á haustin hitti ég aftur vetrarvini mína og við vorum alltaf jafn hissa á því hvað við höfðum stækkað um sumarið. Vert er að geta þess að ég lék mér sjaldan við jafnaldra mína, flestir vinir mínir voru annað hvort mun yngri en ég og nokkrir mun eldri og af báðum kynjum. Ég hef aldrei fengið botn í hvernig á því stóð

Skólaganga mín hófst við sjö ára aldur. Það tók mig næstum því tvo vetur að verða læs, en varð svo fluglæs níu ára gamall á jólanótt er ég fékk fyrstu bókina í jólagjöf en hún hét Góður götustrákur. Síðar á ævinni leitaði ég skýringa á þessu fyrirbæri. Móðursystir mín, Dagmar Dahlmann (1906-2002), var nokkuð höll undir þá skýringu að móðurafi minn, Jón J. Dahlmann, ljósmyndari (1873-1948), hafi kennt mér að kveða að þegar ég var á fjórða ári en því svo ekki sinnt eftir fráfall hans. Afi minn var í Hólaskóla í Haukadal og kannski voru kennsluaðferðir hans frábrugðnar því sem síðar tíðkaðist.

Móðir mín lagði á það áherslu að ég gengi í skólann út Hringbrautina og síðan Furumel að Melaskóla. Þessi leið var um það bil kílómetri en mun styttra var að skjótast í gegnum braggahverfið Kamp Knox. Sessunautur minn af dönskum ættum bjó við Kaplaskjólsveg, rétt fyrir utan kampinn [það var loftvarnarbyrgi við húsið þar sem við lékum okkur stundum] og margir af skólabræðrum okkar bjuggu í kampinum þannig að við urðum samferða í skólann.

Mér leið alltaf illa í þessum skóla, enda var ég í „tossabekk" og átti ekkert samneyti við skólafélagana utan skólans, heldur lék mér við „vetrarvini" mína. Það gekk svo langt að ég neitaði að fara í skólann en var þá keyrður upp að dyrum en gat einhvern veginn smogið út á öðrum stað og falið mig. Ég fannst þó fyrir rest og var fylgt inn í tíma.

Ég man ekki hverjir kennarar mínir voru né hvað þeir hétu og var þeirri stundu fegnastur er ég losnaði úr þessu helvíti. Stundum sé ég þó eldri manni bregða fyrir hér í nágrenninu sem minnir mig á gamla barnaskólakennarann minn, en hann var svo gamall þegar hann kenndi mér að hann hlýtur að vera löngu dauður.

Þegar kom að því að fara í gagnfræðiskóla var skipting í skóla um Hringbrautina og enginn af skólafélögum mínum úr barnaskóla fór í Gaggó Vest - nema ég.  Þrettán ára og fyrsta árið mitt í gaggó ver í Gamla Stýrimannaskólanum en síðan fluttist hann niður í JL-húsið. Ég var sá eini í mínum bekk sem fór í Landspróf, til að komast í menntaskóla, en náði ekki framhaldseinkunn og varð að fara aftur í Landspróf og var sendur út á land - á Staðarstað þar sem Galdra-Loftur dvaldi sína hinstu daga  - en meira um það síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband