Þjóðlífsmynd 002: Alvöru sveit og reiðmennska

 

     Á sjötta ári (1950) fór ég fyrst í alvöru sveit með systur minni sem er fjórum árum eldri. Það var að Reykjum í Miðfirði (Laugarbakka) til Jóns og Höllu, en Halla hafði verið vinnukona móðurömmu minnar. Áður höfðu eldri systur mínar verið þar í sveit.

Jón setti mig berbakt upp á hest  til að ná í kýrnar. Ég datt af baki til vinstri og hægri. Stóð upp, leiddi hestinn að næstu þúfu og fór aftur á bak. Mér tókst að sækja kýrnar og reka þær heim og nafni hrósaði mér fyrir þrákelknina. Seinna meir er ég nokkuð viss um að ég hafi ekki verið einn á ferð. Hann fyrirgaf mér líka að spyrja hvað hann ætti stóra „lóð". Mjólkin var sett í brúsa og ekið á hestvagni út á brúsapall og kepptumst við um að fá að fara með. Það var ekki dráttarvél á Reykjum, heldur var slegið með hestum og allt rakað með hrífum.

Elsti bærinn á Reykjum var enn uppistandandi en það var torfbær og stóð fyrir ofan Laugarbakka. Ég fór í heimsókn til gamla fólksins sem bjó þar og fannst dálítið skrýtið að það var moldargólf í göngunum en viðargólf í „stofunni".

Við fengum iðulega „lánaða" hesta og fórum í stutta og langa reiðtúra og ég hef eflaust fengið nóg af reiðmennskunni þetta sumar því ég fór ekki á hestbak fyrr en fjörutíu árum síðar og hafði þá engu gleymt.

      Á Laugarbakka háttaði þannig til að hænsnakofi var undir árbakkanum. Hægt var að ganga út á þakið beint af bakkanum en okkur krökkunum var bannað að gera það því þá hættu hænurnar að verpa.

Fjósið var fyrir ofan Laugarbakka og kýrnar reknar þaðan inn í dal og áttu yfirleitt ekki erindi niður „í byggð". En svo kom það auðvitað fyrri að ein kýrin kom í heimsókn, gekk út á þakið á hænsnakofanum og lét það undan þunga hennar. Sem betur fer lenti kýrhausinn á veggnum, sem hélt, svo hún hálsbrotnaði og drapst samstundis. Nokkrar hænur drápust líka.

Við krakkarnir vorum fyrst á vetfang. Ætli við höfum ekki verið í sundlauginni því þar dvöldum við löngum. Náð var í jeppa því engin var traktorinn og kýrin dregin upp á bakkann. Þar var hún skorin svo innyflin láku út um sárið. Ekki var amast við því að við krakkarnir stóðum nálægt og fylgdumst með öllu. Það var sjálfsagt mál. Ég minnist þess ekki að þetta hafi haft nokkur áhrif á mig, svo sem svefntruflanir eða álíka. Aftur á móti var þetta krassandi saga handa félögunum í bænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband