22.8.2007 | 01:12
Þegar ég hitti Prins Henrik.
Það fræga fólk sem ég hef hitt um ævina hefur einhvern veginn orðið á vegi mínum án þess að ég hafi nokkuð til þess gert eða unnið að hitta það. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar konan kom heim úr stuttu fríi með vinkonum sínum í Danmörku og gaf mér nýjustu kokkabók Prins Henriks og kallaði hann vin minn. Jú, ég hitti Prinsinn og ræddi við hann og ég hef hitt fleira frægt fólk sem mig langar til að segja frá og því stofnaði ég nýjan flokk sem ég kalla Ég og fræga fólkið. Bókin heitir TIL GLÆDE FOR GANEN og er ég búinn að laga einn rétt sem kallast Mangókjúkklingur og er svo sannarlega sæla fyrir sælkera. Ég var einmitt að hugsa um að senda Henriki tölvupóst og biðja hann um að hafa leiðbeiningarnar aðeins betri í næstu bók.
Veturinn 1979 var ég við nám í Danska kvikmyndaskólanum. Það var svo kalt að sundin lagði og allar ferjur stöðvuðust. Við höfðum verið í kúrs um fréttamennsku og fréttakvikmyndatöku fyrir sjóvarp og áttum nú að sýna hvað við gætum. Skólinn var þannig upp byggður að fyrsta daginn sem við mættum settist þessi 18 manna hópur við hringborð (sé það núna hvað það var sniðugt, enginn sat við endann og þar með annað hvort í hásæti eða hornreka) stóðum síðan upp eitt og eitt og kynntum okkur. Var síðan skipt í sex þriggja manna lið, fengum svart/hvíta vídeóvél með stóru upptökutæki og þrífót og látin velja úr þremur handritum (ein A4 síða) til að mynda. Urðum að taka allt í réttri röð og höfðum ekkert hljóð - fyrr en seinna um daginn er við komum til baka, en þá var hækkað í hljóðinu og hlustað á allar fyrirskipanirnar og öskrin.
Danirnir skiptu fréttum í þrennt: 1. Það sem er/var að gerast = heimsókn, flugvél hrapaði. 2. Það sem stendur yfir í stuttan tíma = sýning, hús í byggingu og 3. Þróun í samfélaginu. Við höfðum einmitt byrjað á þróuninni og tókum viðtöl við Dani og Pakistana sem bjuggu í Viktoríugötu sem er smágata milli Istegade og Vesterbrogade og var að breytast í Pakistanagöut (innflytjendavandamál) . Síðan fórum við á Thorvaldsensafnið en þar var skrýtin sýning: Fjöldi reiðhjóla hafði verið veiddur upp úr sýkjum Kaupmannahafnar og soðin saman í nokkurs konar pýramída og lágu tröppur upp á toppinn en hver trappa var frábrugðin þeirri næstu á undan. Ein var úr gleri, önnur úr steinsteypu, sú þriðja úr dúni, fjórða uppblásin, fimmta var málverk og svo framvegis. Svo það var komið að því að taka samdægurs fréttina. Eitthvert okkar hafði rekist á smáfrétt í blaði að Prins Henrik ætlaði að heimsækja Kastelíið svo hringt var í herinn og fengið leyfi til að mæta og mynda prinsinn. Eins og áður var sagt var mjög kalt og við stilltum okkur upp úti með öll tækin og biðum eftir prinsinum. Ég stjórnaði í þetta skiptið og gat því smellt af nokkrum ljósmyndum.
Prinsinn mætti brosandi út að báðum eyrum og gekk inn í hús. Við rifum upp tökuvélina og nagrann og inn á eftir og stilltum okkur upp úti í horni eins og okkur hafði verið fyrir lagt. Prinsinn kom inn í stofuna, ég leit á hann, en hann leit á vélina og síðan á mig. Ég snéri mér við og sá að linsann var í móðu. Hitabreytingin var svo snögg og mikil að dögg settist á linsuna. Ég var fljótur að kippa upp vasaklút og þurrka móðuna af og við létum þetta halda sér í fréttinni: Prinsinn stígur út úr bíl sínum, heilsar og gengur inn. Inni: Allt í móðu. Prinsinn kemuri inn, hönd með vasaklút teygir sig í linsuna og strýkur móðuna af og síðan heldur fréttin áfram.
Þegar Henrik sá að við höfðum lokið okkur af kom hann og heilsaði upp á okkur og spjallaði um skólann, kvikmyndir og fréttamennsku og auðvitað var Íslendingurinn manna borubrattastur og kjaftaði við prinsinn á sinni hörðu dönsku eins og jafningja. Mig minnir að ég hafi jafnvel sagt du en ekki De, hvað þá Deres Majestæt.
Flokkur: Ég og fræga fólkið | Breytt 26.8.2007 kl. 11:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.