22.8.2007 | 01:12
Þegar ég hitti Prins Henrik.
Það fræga fólk sem ég hef hitt um ævina hefur einhvern veginn orðið á vegi mínum án þess að ég hafi nokkuð til þess gert eða unnið að hitta það. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar konan kom heim úr stuttu fríi með vinkonum sínum í Danmörku og gaf mér nýjustu kokkabók Prins Henriks og kallaði hann vin minn. Jú, ég hitti Prinsinn og ræddi við hann og ég hef hitt fleira frægt fólk sem mig langar til að segja frá og því stofnaði ég nýjan flokk sem ég kalla Ég og fræga fólkið. Bókin heitir TIL GLÆDE FOR GANEN og er ég búinn að laga einn rétt sem kallast Mangókjúkklingur og er svo sannarlega sæla fyrir sælkera. Ég var einmitt að hugsa um að senda Henriki tölvupóst og biðja hann um að hafa leiðbeiningarnar aðeins betri í næstu bók.
Veturinn 1979 var ég við nám í Danska kvikmyndaskólanum. Það var svo kalt að sundin lagði og allar ferjur stöðvuðust. Við höfðum verið í kúrs um fréttamennsku og fréttakvikmyndatöku fyrir sjóvarp og áttum nú að sýna hvað við gætum. Skólinn var þannig upp byggður að fyrsta daginn sem við mættum settist þessi 18 manna hópur við hringborð (sé það núna hvað það var sniðugt, enginn sat við endann og þar með annað hvort í hásæti eða hornreka) stóðum síðan upp eitt og eitt og kynntum okkur. Var síðan skipt í sex þriggja manna lið, fengum svart/hvíta vídeóvél með stóru upptökutæki og þrífót og látin velja úr þremur handritum (ein A4 síða) til að mynda. Urðum að taka allt í réttri röð og höfðum ekkert hljóð - fyrr en seinna um daginn er við komum til baka, en þá var hækkað í hljóðinu og hlustað á allar fyrirskipanirnar og öskrin.
Danirnir skiptu fréttum í þrennt: 1. Það sem er/var að gerast = heimsókn, flugvél hrapaði. 2. Það sem stendur yfir í stuttan tíma = sýning, hús í byggingu og 3. Þróun í samfélaginu. Við höfðum einmitt byrjað á þróuninni og tókum viðtöl við Dani og Pakistana sem bjuggu í Viktoríugötu sem er smágata milli Istegade og Vesterbrogade og var að breytast í Pakistanagöut (innflytjendavandamál) . Síðan fórum við á Thorvaldsensafnið en þar var skrýtin sýning: Fjöldi reiðhjóla hafði verið veiddur upp úr sýkjum Kaupmannahafnar og soðin saman í nokkurs konar pýramída og lágu tröppur upp á toppinn en hver trappa var frábrugðin þeirri næstu á undan. Ein var úr gleri, önnur úr steinsteypu, sú þriðja úr dúni, fjórða uppblásin, fimmta var málverk og svo framvegis. Svo það var komið að því að taka samdægurs fréttina. Eitthvert okkar hafði rekist á smáfrétt í blaði að Prins Henrik ætlaði að heimsækja Kastelíið svo hringt var í herinn og fengið leyfi til að mæta og mynda prinsinn. Eins og áður var sagt var mjög kalt og við stilltum okkur upp úti með öll tækin og biðum eftir prinsinum. Ég stjórnaði í þetta skiptið og gat því smellt af nokkrum ljósmyndum.
Prinsinn mætti brosandi út að báðum eyrum og gekk inn í hús. Við rifum upp tökuvélina og nagrann og inn á eftir og stilltum okkur upp úti í horni eins og okkur hafði verið fyrir lagt. Prinsinn kom inn í stofuna, ég leit á hann, en hann leit á vélina og síðan á mig. Ég snéri mér við og sá að linsann var í móðu. Hitabreytingin var svo snögg og mikil að dögg settist á linsuna. Ég var fljótur að kippa upp vasaklút og þurrka móðuna af og við létum þetta halda sér í fréttinni: Prinsinn stígur út úr bíl sínum, heilsar og gengur inn. Inni: Allt í móðu. Prinsinn kemuri inn, hönd með vasaklút teygir sig í linsuna og strýkur móðuna af og síðan heldur fréttin áfram.
Þegar Henrik sá að við höfðum lokið okkur af kom hann og heilsaði upp á okkur og spjallaði um skólann, kvikmyndir og fréttamennsku og auðvitað var Íslendingurinn manna borubrattastur og kjaftaði við prinsinn á sinni hörðu dönsku eins og jafningja. Mig minnir að ég hafi jafnvel sagt du en ekki De, hvað þá Deres Majestæt.
Ég og fræga fólkið | Breytt 26.8.2007 kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 18:31
Hvað er þjóðfræði?
Þar sem ég les þjóðfræði við Háskóla Íslands er ég iðulega spurður um hvað fagið sé og til að forðast of miklar útskýringar segi ég að það sé nokkurs konar framhald af sagnfræði, því allir virðast halda að þeir viti allt um sagnfræði. En svona til gamans kemur hér stutt ritgerð eftir mig sem svarar vonandi spurningunni: Hvað er þjóðfræði?
Ég hitti nokkra kunningja mína sem ég hafði ekki séð lengi og þeir spurðu hvað væri að frétta. Ég svaraði eins og vera bar og minntist á að ég læsi þjóðfræði við Háskóla Íslands. Það virtist ekki koma þeim á óvart því þeir vissu um áhuga minn á þjóðsögunum og tengdu þjóðfræðihugtakið beint við sögurnar og útkoman varð þjóðsagnafræði. Tveir þeirra spurðu þó hvort eitthvað meira fælist í þessu heiti og þótti mér þá gott að geta vitnað í bókina Þjóðtrú og þjóðfræði eftir Jón Hnefil Aðalsteinsson:
Þjóðfræði er vísindagrein sem fæst við rannsókn þjóðmenningar. ...
Í þjóðfræðiheitinu felst tvennt: annars vegar fræðin um þjóðina, heimildir og hugmyndir um þá þjóð sem rannsókn snýst um hverju sinni, líf hennar og starf, kosti og kjör, en hins vegar felst í heitinu fræði þjóðarinnar, sá fróðleikur sem dreginn hefur verið saman á liðinni tíð með hverri þjóð og lifað sem hluti af menningu hennar og borist sem arfur frá einni kynslóð til annarrar. (Jón Hnefill Aðalsteinsson, 1985:9)
Að sjálfsögðu mundi ég þetta ekki orðrétt því þá hefði hópurinn flutt sig um set og tekið upp léttara hjal og ég staðið einn eftir. Þar sem enginn okkar var að flýta sér settumst við inn á næstu krá og fengum okkur bjór. Þetta gæti nú verið eitt verkefnið í fræðunum, sagði ég og lyfti upp bjórglasinu. Forvitni þeirra var vakinn og ég fræddi þá um að ein grein þjóðfræðinnar væri þjóðháttafræði sem fjallaði um verkmenningu, húsagerð, matargerð og þar af leiðandi um bjórbruggun ásamt handiðnum og klæðaburði.
Eru þetta þá ekki bara þjóðsögur?, var næsta spurning. Er þetta allt svona þjóð-eitthvað? og ég svarað að eitt þjóð-eitthvað í viðbót væri þjólífsfræði. Þegar í ljós kom að hvorki væri klám né stóðlíf á bak við það orð virtist sem áhuginn ætlaði að dofna en ég bætt þá við að þjóðfræðin væri yfirgripsmikil grein sem tengdist mörgum greinum innan Háskólans.
Hvaða greinum? var spurt og ég sá fyrir mér mynd þar sem stóð orðið Þjóðfræði í litlum kassa en allt í kring sveimuðu aðrir litlir kassar með nöfnum eins og sagnfræði, félagsfræði, mannfræði, trúarbragðafræði, bókmenntafræði, íslenska, listasaga, fornleifafræði, safnafræði og ferðamálafræði. Þótt ég sæi þetta svona glögglega fyrir mér fannst mér ég þurfa að nefna mannfræði og trúarbragðafræði.
Áttu við guðfræði? var spurt. Guðfræði er trúarbragðafræði, var svarað úr annarri átt, kemur þetta ekki inn á þjóðtrúna?
Fyrst þú ert að minnast á þjóðtrúna, svaraði ég, þá er nútímamerking orðsins ekki nema hundrað ára gömul. Áður merkti þjóðtrú sama og ríkistrú eða þjóðkirkja. Þegar ég sá himnu færast yfir augu þeirra bætti ég við: Andstæða þjóðtrúar var hjátrú sem þýddi aukatrú líkt og hjákona merkir aukakona.
Þú hefur ekki nælt þér í aukakonu í Háskólanum? gall við í æringja hópsins og menn hlógu. Þær gætu verið dætur mínar, svaraði ég, og jafnvel sonardætur, bætti ég við. Ég heyrði einmitt einhvers staðar að kvenfólk sækti í Háskólann, sagði fréttahaukurinn í hópnum, svo það hlýtur að vera allt fullt af kvenfólki í kringum þig? Minnstu ekki á það, svaraði ég, ég er eini strákurinn í bekknum og allir kennararnir eru kvenmenn. Er nauðsynlegt að hafa stúdentspróf til að komast í Háskólann? spurði kvennamaðurinn í hópnum.
Það er heilmikið órannsakað í þjóðfræðinni, meðal annars hvers vegna strákar skuli alltaf þurfa að ræða um kvenfólk þegar þeir hittast.
Þessi viðbót er færð í dag, 29. apríl 2007: Ef þig langar til að sjá allar sætu stelpurnar klikkaðu þá á http://www.graenagattin.net/jolasjo
Heimildaskrá
Árni Björnsson, (1996). Hvað merkir þjóðtrú. Skýrnir, (179)
Félagsvísindadeild. (2006). Þjóðfræði. Upplýsingabæklingur um þjóðfræði. Háskóli Íslands; Reykjavík.
Jón Hnefill Aðalsteinsson, (1985). Þjóðtrú og þjóðfræði. Iðunn: Reykjavík.
Þjóðbrók. (2005). Vefur þjóðfræðinema. Sótt 26. september 2006 af
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2007 | 10:55
Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum
Til nánari útskýringar á nafni bloggsins birti ég hér þjóðsöguna:
Einu sinni voru tveir menn á grasafjalli. Eina nótt lágu þeir báðir í tjaldi saman. Svaf annar, en hinn vakti. Sá þá hinn er vakti, að sá, sem svaf, skreið út. Hann fór á eftir og fylgdi honum, en gat naumast hlaupið svo, að ekki drægi sundur með þeim. Maðurinn stefndi upp til jökla. Hinn sá þá, hvar skessa mikil sat uppi á jökulgnípu einni. Hafði hún það atferli, að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu, og var hún með þessu að heilla manninn til sín. Maðurinn hljóp beint í fang henni, og hljóp hún þá burt með hann. Ári síðar var fólk úr sveit hans á grasafjalli á sama stað. Kom hann þá til þess og var fálátur en ábúðarmikill, svo varla fékkst orð af honum. Fólkið spurði hann, á hvern hann tryði, og sagðist hann þá trúa á guð. Á öðru ári kom hann aftur til sama grasafólks. Var hann þá svo tröllslegur, að því stóð ótti af honum. Þó var hann spurður, á hvern hann tryði, en hann svaraði því engu. Í þetta sinn dvaldi hann skemur hjá fólkinu en fyrr.Á þriðja ári kom hann enn til fólksins, var hann þá orðinn hið mesta tröll og illilegur mjög. Einhver áræddi þó að spyrja hann að, á hvern hann tryði, en hann sagðist trúa á "trunt, trunt og tröllin í fjöllunum" og hvarf síðan. Eftir þetta sást hann aldrei, enda þorðu menn ekki að vera til grasa á þessum stað nokkur ár eftir.
Ef við setjum Sjálfstæðisflokkinn í hlutverk skessunnar og alla hina flokkana í hlutverk mannvera, fæst álit mitt á stjórnmálamönnum landsins. Þegar þeir hafa verið nógu lengi í stjórn með skessunni trúa þeir á Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum.
Eins og Jón Siguðrsson orðaði það svo vel að nú væri tími til að skipta um menn í stjórn sem hefðu setið nógu lengi, ætti kannski að skipta út trunt fyrir prump - því það er búið að vera svo lengi!
Vísindi og fræði | Breytt 30.4.2007 kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 21:31
Velkomin á bloggið mitt
Þó að ég sé enginn ofurhugi tel ég allt í lagi að prófa flest einu sinni, svona til að sjá hvernig það virkar og svo framarlega sem það stefnirekki lífi mínu í voða. Því datt mér í hug að í stað þess að rausa yfir hinu og þessu við mína nánustu, þá gæti ég komið því frá mér sem bloggi.
Það fyrsta sem ég get rausað yfir er hvort hægt sé að bjóða einhvern sem ég hvorki heyri né sé, velkominn á vefsíðu? En eitthvað verður að vera fyrst og það er óþarfi að vera með leiðindi.
Þetta er í rauninni prufufærsla, svona til að sjá hvernig þetta virkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)