Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum

   Til nánari útskýringar á nafni bloggsins birti ég hér þjóðsöguna:

    „Einu sinni voru tveir menn á grasafjalli. Eina nótt lágu þeir báðir í tjaldi saman. Svaf annar, en hinn vakti. Sá þá hinn er vakti, að sá, sem svaf, skreið út. Hann fór á eftir og fylgdi honum, en gat naumast hlaupið svo, að ekki drægi sundur með þeim. Maðurinn stefndi upp til jökla. Hinn sá þá, hvar skessa mikil sat uppi á jökulgnípu einni. Hafði hún það atferli, að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu, og var hún með þessu að heilla manninn til sín. Maðurinn hljóp beint í fang henni, og hljóp hún þá burt með hann.    Ári síðar var fólk úr sveit hans á grasafjalli á sama stað. Kom hann þá til þess og var fálátur en ábúðarmikill, svo varla fékkst orð af honum. Fólkið spurði hann, á hvern hann tryði, og sagðist hann þá trúa á guð.    Á öðru ári kom hann aftur til sama grasafólks. Var hann þá svo tröllslegur, að því stóð ótti af honum. Þó var hann spurður, á hvern hann tryði, en hann svaraði því engu. Í þetta sinn dvaldi hann skemur hjá fólkinu en fyrr.

   Á þriðja ári kom hann enn til fólksins, var hann þá orðinn hið mesta tröll og illilegur mjög. Einhver áræddi þó að spyrja hann að, á hvern hann tryði, en hann sagðist trúa á "trunt, trunt og tröllin í fjöllunum" og hvarf síðan. Eftir þetta sást hann aldrei, enda þorðu menn ekki að vera til grasa á þessum stað nokkur ár eftir.“

   Ef við setjum Sjálfstæðisflokkinn í hlutverk skessunnar og alla hina flokkana í hlutverk mannvera, fæst álit mitt á stjórnmálamönnum landsins. Þegar þeir hafa verið nógu lengi í stjórn með skessunni trúa þeir á Trunt, trunt og tröllin í fjöllunum.

   Eins og Jón Siguðrsson orðaði það svo vel að nú væri tími til að skipta um menn í stjórn sem hefðu setið nógu lengi, ætti kannski að skipta út „trunt“ fyrir „prump“ - því það er búið að vera svo lengi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband