Örsaga 001: Lífselixírinn

 

Jón gamli kreppti og sperrti tærnar til skiptis í smástund áður en hann reis upp í rúminu og settist fram á rúmstokkinn. Hann leit aftur á klukkuna svona til að fullvissa sig um að uppsestur sýndi klukkan sama tíma og þegar hann lá út af á koddanum. Hann teygði tána í inniskóna og dró þá að sér, stakk fótunum í þá og reis síðan rólega upp og tók fyrstu skref morgunsins en þau voru alltaf erfiðust.

Vegalengdin fram á bað var nógu löng til að liðka hann það mikið að hann gat staðið uppréttur (en þurfti ekki að sitja eins og kelling) og kastað af sér vatni, þessari mjóu bunu sem hann varð alltaf að bíða eftir, alveg sama hvað honum var mikið mál. Að því loknu þó hann hendur sínar, hóstaði slýi næturinnar í vaskinn og burstaði tennurnar. Nú var hann orðinn það liðugur að hann gat gengið fram í eldhús og sett vatn í ketilinn.

Jón gamli hellti alltaf fyrst upp á kaffi handa konu sinni og síðan upp á te handa sjálfum sér. Hann hafði þann vana á að hita kaffibrúsann með því að láta heitt vatn renna í hann úr krananum og gat ekki dásamað nógu mikið hvað það var gott að hafa varmaskipti á heitavatnslögninni. Síðan setti hann trektina í brúsann og kaffipokann í trektina. Næst hitaði hann tekönnuna sem hann drakk úr á sama hátt og stillti henni upp við brúsann.

Jón gamli leit ekki við tegrisjum heldur notaði hann síu sem hann fyllti af lausu tei og setti í tekönnuna sína. Þá tók hann kaffistampinn, setti þrjár kúffullar skeiðar í trektina því hann vissi að konan vaknaði ekki á öðrum bolla nema kaffið væri vel sterkt.

En þennan morgun fór eitthvað úrskeiðis. Þegar Jón gamli hellti síðustu kaffiskeiðinni í trektina, féllu þrjú kaffikorn niður í tekönnuna hans. Jón varð einskins var og hellti heita vatninu í tekönnuna og hélt síðan áfram að hella upp á kaffið.

Þegar því var lokið setti hann ketill frá sér, hrærði aðeins með síunni í teinu, tók hana síðan upp og tæmdi úr henni í ruslið. Eftir það skolaði hann síuna og hengdi hana upp á sinn stað.

Jón gamli fékk sér nú fyrsta tesopa dagsins. Hann var vanur að finna til sérstaks unaðar þegar heitt teið rann niður kverkar hans en þennan morgun var eins og einhver unaður öllu ærði færi um líkama hans. Hann fann hvernig hann styrktist allur. Þrautir hurfu á brott, heilinn var skýr eins og komið væri fram á miðjan dag og hann búinn að innbyrða allt úr dagblöðunum.

Ekki hafði Jón gamli grænan grun um hvað var að gerast í líkama hans. Hann hafði af algjörri tilviljun hitt á rétta blöndu Lífselixírsins. Það var hann sem var að umbreyta líkama hans, yngja hann um áratugi og gefa honum horfinn kraft og orku. Hann þurfti bara að klára úr könnunni og láta lífsvatnið hafa sinn gang, þá hefði hann verið lifandi sönnun þess að hinn eini og sanni Lífselixír var ekki hindurvitni og hugarburður heldur hinn eini sanni brunnur lífsins.

Jón gamli smjattaði aðeins og var ekki alveg nógu hress með bragðið svo hann teygði sig í sykrið og bætti hinum vanalegu tveimur teskeiðum út í teið og hrærði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband